Aðferðir og viðfangsefni heimspekikennslu henta sérlega vel til að efla námsvitund nemenda. En hvað er námsvitund og af hverju skiptir hún máli?
Námsvitund (e. meta-cognition) er hæfni í að vera meðvitaður um eigin hugsun, skilning og nám. Þetta er hæfni sem er mjög mikilvæg til að ná þrautseigju og árangri í námi en námsvitund tengist líka sterkri sjálfsmynd og hefur jákvæð áhrif á líðan.
Námsvitund felst í því að hugsa um hvernig maður sjálfur hugsar. Hún er virkjuð á öllum stigum náms:
Áður en verkefnavinna hefst: Nemandinn veit hver markmið námsins eru og meðvitaður um þau viðmið sem gilda um árangur og gæði.
Á meðan á verkefnavinnu stendur: Nemandinn skoðar eigin skilning og stöðu í verkefnavinnu og spyr sig hvar hann sé staddur gagnvart viðmiðunum.
Eftir að verkefnavinnu lýkur: Nemandinn ber sín eigin verk, skilning og stöðu saman við viðmiðin og metur hvort hann hafi náð þeim árangri sem hann stefndi að.
Stutt grein eftir Dr. Marilyn Price-Mitchell á vefnum Psychology Today dregur vel fram aðalatriðin í skilgreiningu á námsvitund og mikilvægi hennar fyrir nám og vellíðan. Fleiri skýringar má skoða í myndböndum hér að neðan:
Myndband sem talar til nemenda sem vilja efla eigin námsvitund (5:40 mín)
Myndband fyrir kennara sem útskýrir muninn á yfirborðskenndu námi og námi til skilnings (10:48 mín)
Myndband sem útskýrir muninn á námi og námsvitund (2:49 mín)
Stutt og laggóð skýring frá John Spencer (2:49 mín)
Það er mikilvægt að þjálfa námsvitund nemenda og ætlast til að nemendur hugsi um eigin stöðu í náminu. Við getum gert þetta með margvíslegum aðferðum svo sem með því að láta nemendur skrifa reglulega í ígrundunarbók, ræða skilning sinn á afmörkuðu efni við námsfélaga eða láta þá nota ákveðnar spurningar til að skoða eigin verkefnavinnu og námsferli.
Fleiri hugmyndir að kennsluaðferðum sem styðja við námsvitund nemenda má skoða í myndböndum hér að neðan:
Myndband sem sýnir kennurum nokkrar leiðir til að efla námsvitund nemenda (2:42 mín)
Myndband sem sýnir nemendum hvað þeir geta gert til að efla námsvitund og bæta námstækni sína (2:16 mín)