Hugsa-para-deila er aðferð sem mjög auðvelt er að nýta í kennslustundum til að virkja nemendur í umræðu um efnið sem kennari er að fara yfir. Aðferðin þarfnast lítils undirbúnings og má nota í nánast hvaða samhengi sem er, með stórum og litlum hópum.
Hvað gerir kennarinn?
Þegar kennari hefur farið yfir ákveðið efni gerir hann pásu á sínu tali, biður nemendur um að hugsa í smá stund um ákveðna spurningu sem tengist efninu, raðar síðan nemendum í pör og lætur þá tala saman um efnið. Þegar pörin hafa rætt í tiltekinn tíma er gott að velja 2-4 pör til að segja frá umræðunni í bekknum svo hugmyndir fari á meira flug í hópnum.
Til hvers að nota hugsa-para-deila?
Það brýtur námsefnið upp í hæfilega litla búta sem auðveldar nemendum að taka við því og tengja ólíka hluta námsins.
Það virkjar nemandann í hugsun um efnið.
Það gefur nemendum ný og fleiri sjónarhorn á námsefnið sem eykur líkurnar á skilningi þeirra.
Það skapar vettvang fyrir leiðsögn. Nemandinn sjálfur tekur tíma til að hugsa um hvort hann hafi náð skilningi á efninu og kennarinn heyrir stöðuna á skilningi nemenda þegar hann hlustar á samtöl þeirra.
Nokkur góð ráð:
Útskýrðu tilganginn með verkefninu vel fyrir nemendum. Gott er að hafa markmiðin sýnileg í skólastofunni til dæmis með skilti eins og þú getur prentað út hér neðar.
Raðaðu nemendum í pör í upphafi dags eða kennslustundar. Láttu sama parið vinna verkefnið nokkrum sinnum áður en skipt er um félaga svo nemendur kynnist aðeins og fái tækifæri til að dýpka samtalið sín í milli.
Skilgreindu A og B hlutverk í hverju pari svo auðvelt sé að láta nemendur skiptast á verkefnum í samtölunum. Til dæmis að A byrji á að spyrja og hlusta á meðan B segir sínar hugmyndir, og svo skipta þau um hlutverk.
Notaðu spurningar til að stýra nemendum í hugsun og samtali en passaðu að nota bara eina spurningu í hverri umferð. Spurningarnar geta verið af ýmsu tagi: skilgreina hugtök, draga ályktanir, bera saman, taka afstöðu til málefnis og svo framvegis.
Gefðu nemendum afmarkaðan tíma til dæmis: Hugsið sjálf í 1 mínútu, ræðið í tvær mínútur og svo hittist allur bekkurinn aftur.
Endurtaktu verkefnið oft. Nemendur þurfa nokkrar tilraunir til að kynnast aðferðinni og venjast því að ræða saman til að dýpka skilninginn sinn. Markmiðið er að aðferðin sé fastur liður í kennsludeginum og nemendur líti á hana sem eðlilegan hluta af kennslustund.
Hlustaðu vel á samtöl nemenda því þau gefa þér tækifæri til að meta stöðu þeirra og leiðbeina áfram. Segðu nemendum að þú gangir um og hlustir á meðan þau ræða og þau geti spurt þig spurninga þegar þú labbar framhjá.
Verkefnalýsing til að hengja upp eða hafa á skjá
(skapalón á canva.com)
Verkefnalýsing til að hengja upp eða hafa á skjá
(skapalón á canva.com)
Blað þar sem nemendur skrá hugsanir sínar og úr samtali
(skapalón á canva.com)
Finnum aðalatriði í texta (skapalón á canva.com)
Efnið á þessari síðu er að miklu leyti fengið úr umfjöllun Jennifer Gonzales á vefnum Cult of Pedagogy.
Á vefnum The Teacher Toolkit má finna stuttar leiðbeiningar um hvernig hægt er að nota aðferðina með bæði yngri og eldri nemendum og vinnublöð sem hægt er að láta nemendur hafa til að halda utan um hugsanir sínar og ferlið.