Heimspekileikir eru einfaldir leikir sem virkja stóra nemendahópa til að hugsa og ræða saman. Þeir eru yfirleitt stuttir og einfaldir í framkvæmd en þurfa í sumum tilfellum smá undirbúning til dæmis að kennari hafi merkingar tilbúnar á spjöldum eða skapi gott rými í kennslustofunni.
Upphitun í byrjun kennslustunda: Heimspekileikir fá nemendur til að hugsa og tala og oftar en ekki til að hlæja smá líka. Heimspekileikir fela oft í sér hreyfingu sem hjálpar huganum að koma sér af stað.
Hópefli: Heimspekileikir felast alltaf í stuttum samtölum milli nemenda. Oft er viðmælendum raðað handahófskennt saman og oft felast leikirnir í stuttum samtölum við nokkra aðila. Leikirnir eru léttir og skemmtilegir, áherslan er á að segja eitthvað en ekki endilega hafa rétt fyrir sér eða vita eitthvað. Þetta gefur öllum nemendum tækifæri til að tjá sig án þess að eiga það á hættu að þeir þurfi að berskjalda sig.
Þjálfa leikni sem nemendur þurfa að beita í lengri eða efnismeiri samræðum: Í heimspekileikjum þjálfa nemendur að hlusta, taka afstöðu, rökstyðja skoðun sína og vera tilbúin að skipta um skoðun þegar rök mæla með því. Í kennsluseðli í Verkefnabanka heimspekitorgsins (pdf) eru þessir þættir útskýrðir betur.
Epli, mörgæs, Eurovision (pdf): Þrjú orð eru sett upp til sýnis og nemendur eiga að finna hvað þau eiga sameiginlegt. Nemendur geta unnið saman í pörum eða minni hópum og deilt niðurstöðum sínum með bekknum. Leikurinn þjálfar leikni nemenda að finna tengsl, orða þau og útskýra.
Að kjósa með fótunum (pdf): Kennari leggur spurningu fyrir bekkinn og gefur nokkur ólík svör (2-4). Svörin eru skrifuð á stór spjöld sem dreift er um námsrýmið. Hver nemandi fer að spjaldinu með svarinu sem honum finnst best. Kennarinn biður nokkra nemendur um að útskýra af hverju þeir völdu svarið og tvinnar umræðu út frá því. Leikurinn þjálfar nemendur að taka afstöðu og rökstyðja svör sín.
Heimspeki bland í poka (pdf): Í leiknum er spurningum eða myndum á miðum kastað um stofuna. Hver nemandi finnur sér einn miða og svo para nemendur sig saman til að ræða það sem er á miðunum í 1-2 mínútur.
Hrærigrautur heimspekingsins (pdf): Nemendur standa í hring og kennari les upp spurningar. Nemendur taka afstöðu til spurninganna og þeir sem eru á sömu skoðun skipta um pláss í hringnum.
Spurningasafnið (pdf): Kennarinn raðar nokkrum spurningum á ólíka staði í námsrýminu. Nemendur fara að spurningu sem þeir vilja ræða og ræða við aðra nemendur sem velja sömu spurningu.
Ef hundurinn minn væri hestur (pdf): Leikur sem þjálfar nemendur í "ef... þá..." setningum og hlustun.