Samtal nemenda og kennara er hjartað í öllu skólastarfi. Mjög algengt er að kennarar noti einstaklingssamtöl við nemendur til að fylgjast með líðan þeirra og félagslegum samskiptum. En þessi vettvangur er líka mjög mikilvægur fyrir kennara til að fylgjast með námslegri stöðu nemenda, afla upplýsinga um þörf á kennslu eða þjálfun, og gefa nemendum endurgjöf og leiðbeiningar um næstu skref í náminu.

Á þessum vef geta kennarar fundið umfjöllun um mikilvægi samtala nemenda og kennara um framvindu náms. Einnig finna þeir leiðbeiningar um skipulag samtala og skapalón sem auðvelt er að afrita og nýta í eigin námsumhverfi.

Efnið á vefnum byggir að miklu leyti á þróunarverkefninu "Námssamtöl til að auka skilning nemenda á eigin stöðu í námi" sem nokkrir kennarar á unglingastigi Stapaskóla unnu skólaárið 2021-2022.