Reykjanesbær, 9. febrúar 2024
Þriðjudaginn 6. febrúar sat ég og gekk frá erindi fyrir formandskabet for Rådet for Børns Læring (FRBL) sem er faglegur ráðgjafahópur sem starfar fyrir danska menntamálaráðherrann. Þar sem ég tala ekki dönsku* er erindið á ensku og hægt er að skoða það í meðfylgjandi glærum. Ég mæli með að glærurnar séu opnaðar í powerpoint eða slides svo glósurnar verði sýnilegar.
Erindinu var ætlað að svara spurningu frá Dönunum: Hvernig útskrifa íslenskir grunnskólar nemendur án þess að leggja fyrir lokapróf? Ég var beðin um að halda erindið fyrir hönd Menntamálastofnunar (MMS) og vann að því í samráði við verkefnastjóra hjá MMS. Þær túlkanir og skoðanir sem fram koma eru þó alfarið á mína ábyrgð.
Á sama tíma og ég sat og hugsaði um hvernig við högum námsmati í grunnskólunum á Íslandi og hvernig nemendur eru innritaðir í framhaldsskólana fór fram fundur um íslenskt skólakerfi á vegum málfundafélagsins Óðins sem starfar undir hatti Sjálfstæðisflokksins. Á fundinum voru flutt nokkur inngangserindi og í kjölfarið fóru fram mjög athyglisverðar umræður. Ég hvet skólafólk til að hlusta á fundinn í heild því málefnið er mikilvægt óháð því hvort við erum sammála þátttakendum á fundinum eða ekki. Fundurinn er aðgengilegur á Youtube.
Umræða um fundinn fór reyndar strax af stað þetta þriðjudagskvöld á Skólaþróunarspjallinu á Facebook í spjallþræði sem Ragnar Þór Pétursson setti af stað undir fyrirsögninni Stóra bomban um samræmd próf. Spjallið ávarpaði ýmis af þeim atriðum sem fram komu á fundi Óðins og líka atriði sem ég fjallaði um í erindi mínu fyrir FRBL. Mig langar til að taka þátt í þessari umræðu með því að draga hér fram nokkur atriði sem mér hafa verið hugleikin varðandi þróun skólastarfs á Íslandi.
Aðalnámskrá grunnskóla frá 2011/2013 er að mínu mati góð námskrá. Ég var skólastjórnandi á þeim tíma sem hún var gefin út og tók þátt í erfiðum ferli við að innleiða aðalnámskrána í starf skóla. Í námskránni var tekið róttækt skref til að breyta kennsluháttum með því að auka áherslu á leiðsagnarnám og gera skólastarf og kennsluhætti nemendamiðaðri. Í stað þess að inntaki náms væri lýst með markmiðum voru sett fram hæfniviðmið vísa meira til viðhorfs og hvernig nemendur beita þekkingu og leikni en gömlu markmiðin. Hæfniviðmið í námskránni frá 2013 eru oft umfangsmeiri og flóknari aflestrar heldur en markmiðin í fyrri námskrá sem var frá árinu 1999. Þessi breyting gerði kröfu til skólafólks að endurskrifa skólanámskrár og huga vel að því að nemendur fengju í skólanum tækifærni til að þjálfa upp hæfni af ýmsu tagi en ekki bara tileinka sér tiltekið magn af þekkingu og tæknilegri leikni.
Innleiðing námskrárinnar var erfið. Að mínu mati var hún erfið af tveimur megin ástæðum:
Kennarar og skólastjórnendur höfðu litla (og oft enga) þekkingu og reynslu af leiðsagnarnámi og gekk því illa að skilja nýju námskrána. Í margra augum var verið að skikka fagfólk skólanna í óþarfa skriffinsku við gerð nýrrar námskrár en skilningur á þeim kennslufræðilegu breytingum sem námskráin boðaði var ekki til staðar.
Stuðningur var ekki til staðar við innleiðinguna til að endurmennta kennara og skólastjórnendur eins og þörf var á.
Þótt það hafi verið sárt fyrir okkur skólafólkið að finna ekki viðunandi skýringar og stuðning við innleiðingarvinnuna komu góðir hlutir út úr ástandinu, eins og oft vill verða þegar fólk tekst á við áskoranir. Stjórnendur nokkurra unglingastigsskóla á höfuðborgarsvæðinu þéttu til dæmis samstarf sitt, leiddu saman kennara skólanna og hjálpuðust að við að leysa úr sumum af spurningunum sem upp komu. Stjórnendahópurinn setti líka niður penna og lýsti innleiðingarvandanum í grein í Kjarnanum. Í þessari sömu grein ávörpuðum við vanda sem þarna var kominn upp vegna óvissu um hvernig ætti að haga útskrift nemenda úr grunnskólanum.
Og þá er ég komin að tengingunni við erindið sem ég hélt fyrir danska ráðgjafahópinn. Hvernig útskrifum við nemendur úr grunnskólanum á Íslandi?
Svarið er að grunnskólunum ber að meta hæfni nemenda miðað við matsviðmið Aðalnámskrár grunnskóla (sjá t.d. kafla 9.4 í Aðalnámskrá). Kennarar og skólastjórnendur skilja betur núna heldur en þegar við skrifuðum greinina í Kjarnann árið 2015 hvernig við vinnum þetta verkefni. En það er samt staðreynd að matsviðmið Aðalnámskrár eru bara nokkrar málsgreinar sem lýsa mjög fjölbreyttri hæfni sem nemendur eiga að hafa sýnt og hægt er að túlka viðmiðin á óteljandi ólíka vegu. Af þessum ástæðum sagði ég við Danina að útskrift úr grunnskóla á Íslandi væri ekki samræmd. Eðlilega spurðu sérfræðingarnir í danska fagráðinu hvort þetta væri ekki vandamál. Hvernig vitum við hver námshæfni íslensks unglings er við upphaf framhaldsskólans? Ég vísaði þá til samtala minna við stjórnendur í nokkrum framhaldsskólum sem telja sig vera nokkuð fljóta að læra að lesa grunnskólaeinkunnirnar. Þeir segjast þekkja muninn á einkunnagjöf ólíkra skóla og hafa fundið margvíslegar leiðir til að raða nemendum í áfanga sem þeir ráða við þegar þeir hefja nám á nýju skólastigi. Ég bætti við að kannski gengi þetta kerfi upp af því að við værum svo lítið samfélag, starfsmenn skóla tala saman reglulega og sérstaklega þegar upp koma vandamál við skil skólastiganna.
En er það í lagi að við höfum ekki skýra mynd af hæfni nemenda við lok grunnskóla? Af hverju getum við ekki svarað spurningunni um hæfni nemenda á mikilvægum tímamótum á skýrari hátt?
Og þá er ég komin að spurningunni um samræmd próf. Ég er sammála Jóni Pétri Zimsen og Ingibjörgu Jóhannsdóttur sem tóku þátt í fundi málfundafélagsins Óðins að okkur vantar samræmt námsmat í grunnskólunum á Íslandi. Ekki af því að samræmd próf mæli allt eða leysi allan vanda skólakerfisins. Alls ekki. En samræmt námsmat gefur öllum kennurum sameiginlegan mælikvarða sem hægt er að nota til að fylgjast með eigin starfi og þróa það. Slíkt mat er forsenda þess að kennarinn geti einstaklingsmiðað kennsluna og mætt ólíkum þörfum nemenda****. Að afla gagna um stöðu mála, rýna í þau og nýta þau til að þróa starfsemina eru vinnubrögð sem einkenna lærdómssamfélög í skólum og á öðrum starfssviðum. Það er áhyggjuefni ef vinnubrögð af þessu tagi eru ekki eðlilegur hluti af íslensku skólakerfi** og það eru áhyggjur af þessu tagi sem valda því, að mínu mati, að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra spurði á títtnefndum fundi af hverju skólafólk væri hrætt við að ræða um árangur í skólastarfi. Hún vísaði til slakrar útkomu á PISA könnuninni og spurði: "Hvað þarf til að grunnskólinn sjálfur sé tilbúinn að taka umræðuna um stöðuna?"
Ég sem kennari vil að nemendur mínir nái árangri í námi sínu. Ég er íslenskukennari og tek það til mín að íslenskir unglingar sýni stöðugt versnandi læsi á PISA könnununum. Þrátt fyrir góða menntun og mikla reynslu af skólastarfi tel ég mig ekki geta sett skýr viðmið um árangur án samráðs við aðra kennara og staðla. Staðlarnir eru afar fáir í íslensku samhengi þannig að ég hef lagt áherslu á að eiga samráð við eins marga kennara og ég hef tíma og tök á að ræða við. En ég er hrædd um að samráðið muni aldrei duga til að skapa sameiginlega sýn á hvað teljist viðeigandi hæfni 15 ára unglings á Íslandi. Við höfum hvort tíma né aðstæður til að tryggja að þetta samráð nái til allra kennara landsins. Ég sakna þess því að hafa ekki skýrari staðla um þau atriði sem við getum verið sammála um að grunnskólinn eigi að þjálfa. Til eru nokkur mælitæki*** til að fylgjast með læsi nemenda en þeim fer fækkandi eftir því sem ofar dregur í grunnskólanum. Það er til dæmis ekki til staðlað tæki til að meta lesskilning nemenda í 9. og 10. bekk. Kennari sem vill bæta stöðu nemenda sinna í læsi á unglingastigi verður því að bjarga sér sjálfur um mælitæki. Er það ásættanlegt? Að mínu mati er staðan óásættanleg og leggur ábyrgð á herðar kennara sem þeir geta ekki staðið undir. Að mínu mati þurfum við að ná sátt um samræmt námsmat á Íslandi svo að kennarar geti sett orku sína í kenna vel og að þróa sig þannig í starfi að árangur nemenda aukist.
Ég vona að við séum á réttri leið í þessum málum. Ég vona að við förum að sjá fjármagn og kraft í þróun á nýjum Matsferli sem á að koma í stað gömlu samræmdu prófanna. Ég vona að þegar skólar fá aftur aðgang að niðurstöðum samræmdra prófa þá taki kennarar og skólastjórnendur faglega á móti niðurstöðunum og nýti þær til að þróa starfið. Ég vona líka að þessir sömu kennarar og stjórnendur svari samfélagsumræðunni á yfirvegaðan hátt. Við verðum að þola það að samfélagið hafi skoðun á skólamálum því þau varða alla landsmenn og kynslóðir framtíðarinnar. Kennarar eiga að taka gagnrýni þegar hún er málefnaleg, bera höfuðið hátt og svara henni eins og þörf er á. Stundum þurfum við kennarar að leiðrétta túlkanir og benda á það sem er satt og rétt. En stundum þurfum við kennarar líka að vera tilbúnir að horfa á okkar eigið starf og skoða hvernig við getum bætt það.
Kær kveðja,
Brynhildur Sigurðardóttir
Ég er í námsleyfi veturinn 2023-2024. Á námskeiði um uppbyggingu og þróun lærdómssamfélaga skrifaði ég ritgerðina Gögn og gagnrýni í lærdómssamfélagi sem tengist efni þessarar greinar og lesa má hér á vefnum.
* Ég lærði ekki dönsku í grunnskóla því ég bjó í Svíþjóð frá 7-11 ára aldri. Eftir heimkomuna til Íslands hélt ég áfram að læra sænsku sem norræna málið mitt og hélt því áfram upp grunn- og framhaldsskóla.
** Anna Kristín Sigurðardóttir. (2010). Professional learning community in relation to school effectiveness. Scandinavian Journal of Educational Research, 54(5), 395-412.
***Orðalykill er staðlað tæki til að meta orðaforða, Orðarún er staðlað tæki til að meta lesskilning barna í 3.-8. bekk, Lesfimi próf eru mikið notuð til að fylgjast með lestrarhraða nemenda í 1.-10. bekk en minna notuð til að meta lestrarlag nemenda.
****Sjá til dæmis umfjöllun um einstaklingsmiðaða kennslu í Steinunn Torfadóttir. (2011). Hvernig má sporna við fyrirsjáanlegum lestrarvanda? Í Steinunn Torfadóttir (ritstjóri) Leið til læsis. Lesskimun fyrir fyrsta bekk grunnskóla. Handbók (bls. 27-34). Menntamálastofnun og Háskóli Íslands.