Reykjanesbær, 19. apríl 2024
Í skólum sem ég heimsótti í New York í nóvember 2023 fannst mér mjög merkilegt hvað samræða nemenda var algeng í þeim kennslustofum sem ég kíkti inn í. Nemendur ræddu margvísleg viðfangsefni og stór, flókin hugtök óháð því hvort þeir voru í litlum bekkjum í einkaskólum eða 35 manna bekkjum í almenningsskólum. Samræða bekkjarins undir stjórn kennara var mjög algeng en ég sá líka ítrekuð dæmi um sókratískar málstofur (e. Socratic seminar), nemendastýrða samræðuaðferð sem er útskýrð í myndbandi John Spencer.
Sókratískar málstofur byggja á góðum tengslum milli nemenda og að þeir hafi fengið þjálfun í samræðum og undirbúningi málstofunnar. Þetta er því ekki fljótleg aðferð en hún er áhrifarík í námi nemenda og ég vil því hvetja kennara til að kynna sér hana.
Samræðuaðferðin gengur út á að nemendur ræði texta eða annað viðfangsefni án mikillar aðkomu kennarans. Þeir þurfa að taka ábyrgð á samtalinu, spyrja spurninganna og nýta tímann til að læra af félögum sínum hvernig hægt er að skilja efnið og sjá í því ólík sjónarmið. Þetta gefur þeim tækifæri til að tengja nýja þekkingu við fyrri reynslu og dýpka skilning á nýju efni.
Allir nemendur í hring og kennarinn með til að leiðbeina um ferlið. Ég mæli með að þetta sé aðeins gert í fyrstu tilraunum því mikilvægt er að gefa nemendum skýrt svigrúm til að eiga samræðuna og þurfa að bera sjálfir ábyrgð á henni.
Allir nemendur í hring og kennarinn situr fyrir utan þar sem hann fylgist með og skráir hjá sér hvað nemendur gera. Einföld aðferð til að meta hverjir tala meira og hverjir minna er Spiderweb skráning sem Cathy Gassenheimer fjallar um á þessari síðu. Kennarinn skrifar þá nöfn allra nemenda á A4 eða A3 blað í þeirri röð sem þeir sitja. Á meðan nemendur tala gerir kennari punkt við þann sem talar og dregur síðan strik að næsta nemanda sem tekur orðið, þannig að vefur myndast á blaðinu. Kennari getur líka punkta við nöfn nemenda hvort þeir séu að spyrja, grípi frammí eða sýni aðra ókurteisi, hjálpi öðrum að komast að, svari spurningum, skipti um skoðun eða annað sem nemendur eiga að þjálfa í samræðunni.
Fiskabúrs aðferð hentar í stórum hópum. Þá situr helmingur nemenda í innri hring og ræðir efnið á meðan hinn helmingurinn stendur í ytri hring og hlustar, fylgist með og metur samræðu innri hringsins. Síðan er hægt að láta nemendur skipta um stað. Það er mikilvægt að gefa nemendum í ytri hringnum tækifæri til að segja frá mati sínu á samræðu innri hringsins. Í þessu stutta myndbandi frá Edutopia er stutt skýring og dæmi um notkun fiskabursins.
Nemendur verða að hafa fengið kynningu á því hvað sókratísk málstofa er og hvaða hæfni þeir eru að þjálfa með þátttöku sinni í verkefninu. Einn af bandarísku kennurunum sem ég sá nota aðferðina í 5. bekk hafði sýnt nemendum myndband Dr. John Spencer og farið vel yfir efni þess með nemendunum áður en þeir tóku þátt í málstofu í fyrsta sinn. Dr. Spencer útskýrir undirbúningsferlið nánar á þessari vefsíðu.
Nemendur þurfa að vera búnir að lesa vel það efni sem á að ræða, þjálfa orðaforðann sem býr í efninu og undirbúa sig fyrir málstofuna með spurningum, glósum eða öðru sem kennari metur hjálplegt.
Fyrsta tilraun til málstofu er ekki marktæk, það getur allt farið úrskeiðis. Nemendur þurfa að fá tækifæri til að endurtaka verkefnið, bæta sig og læra smám saman hvað þeir geta fengið út úr samræðunni.
Hægt er að nota tæki eins og samræðustofna til að styðja nemendur af stað með tjáningu, spurningar og endurgjöf til félaga sinna í samræðunni.
Sókratíska málstofu má nota til að þjálfa ýmis af hæfniviðmiðum íslensku aðalnámskránnar. Hér eru dæmi af viðmiðum fyrir 10. bekk í nokkrum námsgreinum:
tjáð hugsanir sínar, hugmyndir og tilfinningar á skipulegan, skýran og viðeigandi hátt,
brugðist með rökum við upplýsingum og hugmyndum sem eru á margvíslegu formi, tekið þátt í rökræðum um viðfangsefni og rökstutt mál sitt af yfirvegun og tekið tillit til ólíkra sjónarmiða,
rætt á viðeigandi og skýran hátt um málefni þannig að áhugi viðmælenda sé vakinn,
notað orðaforða á fjölbreyttan hátt og viðeigandi hugtök sem tengjast margskonar umfjöllunarefni,
spurt rannsakandi spurninga, skipulagt eigin áætlun og endurskoðað ferli við efnistök og úrvinnslu verkefna,
tekið upplýsta afstöðu til gagna og upplýsinga, dregið ályktanir og skapað eigin merkingu,
nýtt aðferðir sem hann hefur lært til að taka virkan þátt í samvinnu, samræðum og rökræðum, tjáð skoðanir sínar með ýmsum hætti, rökstutt þær og valið þeim miðil sem hentar,
hlustað, tekið eftir og nýtt sér upplýsingar í töluðu máli til fróðleiks og skemmtunar...
átt góð samskipti þar sem gætt er að máli, hlustun, tillitssemi, virðingu og kurteisi.
lesið almenna texta af öryggi og með góðum skilningi, lagt mat á þá og túlkað,
fjallað á upplýstan hátt um einkenni og stöðu Íslands í heiminum í ljósi legu og sögu landsins og breytilegrar menningar, trúar, lífsviðhorfa og stjórnarfars,
rökrætt mikilvæg hugtök, sem notuð eru um menningar- og samfélagsmálefni,
sýnt fram á þekkingu og gagnrýna sýn á tímabil, atburði, persónur, menningartengsl og þróunarferla á ýmsum tímum, sem vísað er til í þjóðfélagsumræðu,
útskýrt með dæmum hvernig sagan birtist í textum og munum, hefðum og minningum,
rætt og borið saman ólík trúar- og lífsviðhorf og gert sér grein fyrir hvað er sameiginlegt og hvað sérstætt,
rökrætt stöðu sína sem þátttakandi í samfélaginu, réttindi, skyldur og gildismat, sýnt ábyrgð í samskiptum, umgengni og lífsháttum, m.a. með vísan til réttinda samkvæmt alþjóðasáttmálum,
rökrætt gildi jafnréttis og mannréttinda á öllum sviðum samfélagsins og þekki almenn ákvæði um mannréttindi,
tekið þátt í og útskýrt reynslu sína og niðurstöðu af þátttöku í aðgerðum sem varða náttúru og samfélag,
tekið rökstudda afstöðu til málefna og komið með tillögur um hvernig megi bregðast við breytingum...
gefið skýringar á og rökrætt valið efni úr athugunum og heimildum,
dregið ályktanir af gögnum og gefið ólíkar skýringar með því að nota ólík sjónarhorn,
rætt af skilningi eigin lífssýn og ábyrgð innan samfélags og tekið dæmi úr eigin lífi,
rökrætt umhverfismál frá ólíkum sjónarhornum, er tengjast vatni, vatnsnotkun og sjó,
rætt á gagnrýninn hátt framleiðslu, flutning og förgun efna,
Grein hjá Edutopmia: Mary Davenport, enskukennari í 9. bekk (USA) útskýrir hvernig hún undirbýr nemendur, kennir þeim aðferðina og metur hæfni þeirra í verkefninu. Tenglar á verkefnablöð sem hún notar.
Skýring frá Edutopia (3:36 mín)
Skýring frá Let´s teach (um 4 mín)
Kennari sýnir hvernig hún undirbýr og þjálfar nemendur í 2. bekk (8:38 mín)
Að lokum vil ég nefna að ein af áskorunum kennara sem ætla að auka samræðu nemenda er að sleppa sjálfir orðinu. Það getur verið erfitt fyrir kennara að hætta að spyrja, gefa fyrirmæli og beina hugsunum nemenda í ákveðnar áttir. En ef kennari sleppir ekki þessum tökum þá fá nemendur ekki það pláss sem þeir þurfa og samræða þeirra verður þvinguð og ólíkleg til að kafa á dýptina eða kanna nýjar hugmyndir.
Gangi ykkur vel!
Brynhildur