Kasterlee í Belgíu, 1. október 2024
Í stuttu myndbandi á Edutopia er talað um mikilvægi þess að við virkjum alla nemendur í bekkjarumræður, líka þessa feimnu og þá sem hafa litla færni í tungumálinu. Í myndbandinu er lýsing á fjórum einföldum leiðum sem kennarar geta nýtt í skipulaginu hjá sér. Tvær af leiðunum þarfnast ekki neins undirbúnings heldur bara að kennari muni eftir þeim. Hinar tvær má undirbúa með lítilli fyrirhöfn.
Í þessari grein endursegi ég efni myndbandsins með tenglum á ítarefni og tilbúin námsgögn.
Mælt er með að kennarinn gefi nemendum tíma til að hugsa um möguleg svör eftir að spurning hefur verið lögð fyrir hópinn. Þegar allir nemendur fá 5-15 sekúndur til að hugsa í hljóði áður en þeir fljótustu fá að svara aukast líkurnar á að fleiri taki þátt í umræðunni.
Breskir barnaheimspekingar tala stundum um "thinking time" sem er aðeins lengra hlé fyrir hugsun nemenda eftir að spurning er lögð fram. Það er mikilvægt að tímasetja hléið og ein mínuta er oft hæfilegur tími þótt styttri tími geti hentað til að byrja með, á meðan nemendur eru að venjast þögninni. Sumum nemendum getur fundist gott að hugsa á blað, að skrifa eða teikna á meðan þeir hugsa, öðrum finnst best að hugsa bara í friði. Í heimspekilegri samræðu er mælt með að þessi hlé fyrir hugsunina séu fastur liður í skipulagi kennslunnar, sjá til dæmis leiðbeiningar frá Dialogue Works, skref 3.
Hvernig fá nemendur orðið? Þurfa þeir að rétta upp hönd? Það eru ekki allir nemendur tilbúnir að nota þá aðferð til að deila svörum sínum. Sumir eru feimnir, aðrir áhugalausir eða hræddir um að standast ekki samanburð við nemendur sem eru fljótir að gefa "flott svör".
Önnur leið til að gefa nemendum tækifæri til að svara eða fá orðið er að láta alla gefa merki með þumalfingri sem haldið er upp við kviðinn, en þannig að kennari sjái. Ef puttinn snýr upp er nemandinn að gefa merki um að hann vilji svara, ef puttinn snýr niður er það merki um að nemandi viti ekki svarið eða vilji ekki svara af öðrum ástæðum.
Með þessari leið getur kennari verið fljótur að sjá stöðuna á öllum nemendahópnum og fleiri nemendur geta safnað hugrekki til að biðja um orðið.
Þó kennarar hafi oft áhyggjur af því að kalla nemendur upp til að svara eða segja frá þá sýnir reynslan að sú aðferð geti aukið virkni og þátttöku allra nemenda, svo lengi sem þeir vita að valið á þeim sem á að tala sé handahófskennt og allir geti beðið um hjálp ef þeir þurfa. Nanna Kristín Christiansen hefur kallað þessa kennsluaðferð "engar hendur upp" og lýst mikilvægi hennar í leiðsagnarnámi.
Mælt er með að kennarar hafi nöfn nemenda í krukku svo hægt sé að draga úr þeim af handahófi en samt þannig að tryggt sé að allir fái orðið innan verkefnis eða tímaramma.
Þátttökuspjöld eða samræðuspjöld eru miðar sem nemendur hafa hjá sér til að geta sýnt viðbrögð sín í samræðu, óháð því hvort þeir fái síðan orðið eða ekki. Gott er að nota þrjá mikilvæga samræðustofna til að þjálfa upp notkun þátttökuspjalda:
Ég er sammála af því að...
Ég er ósammála af því að...
Ég er ekki viss, mig vantar skýringu eða meiri upplýsingar...
Þegar nemendur hafa byggt upp færni í notkun þátttökuspjaldanna má útbúa ný spjöld með öðrum samræðustofnum sem geta hjálpað nemendum að dýpka samtöl sín enn frekar.
Í þessu myndbandi er notkun þátttökuspjalda útskýrð á 60 sekúndum.