Útivera og útinám er hluti af námi barna í Seljakoti.
Öll börn fara daglega í útivist og stundum oftar ef veður leyfir.
Í útiveru komast börnin í snertingu við náttúruna, þau skynja nánasta umhverfi sitt og læra að meta það. Utandyra geta börnin leyft sér ýmislegt sem er ekki hægt inni, til dæmis ærslaleiki, hróp og köll. Þar geta þau hlaupið, hoppað, stokkið og klifrað og er útisvæði Seljakots vel fallið til margskonar hreyfileikja, bæði sjálfsprottinna og skipulagðra.
Útinám er fastur liður í starfi allra deilda og býður umhverfið í Seljahverfi upp á fjölbreytta námsmöguleika. Útinám er allan ársins hring og er þar unnið markvisst að málörvun, hreyfingu og skynþroska, umhverfismennt, örvun ímyndunarafls og sköpunar. Börnin efla að auki samvinnu, læra að umgangast og virða náttúruna, lesa í umhverfið og þjálfa tíma- og rýmisskyn.