Í starfi okkar með börnunum er horft til hugmyndafræði Reggio Emilia á Ítalíu þar sem markvisst er unnið að því að virkja frumlega, skapandi og gagnrýna hugsun barna. Lögð er áhersla á að börnin fái tækifæri til að nýta sem flesta hæfileika sína og öll sín skilningarvit, börnin eru virkir þátttakendur og fá tækifæri til að móta sitt eigið nám út frá þeirra áhugasviði.
Hlustað er á raddir barnanna og tekið mark á þeirra hugmyndum, líðan og tilfinningum. Með því að kenna börnunum lýðræðisleg vinnubrögð er um leið verið að styrkja sjálfsmynd þeirra og frumkvæði. Þegar unnið er í anda þessarar stefnu er það vinnuferlið sem skiptir mestu máli og það er skynjun, forvitni og ímyndunarafl barnsins sem fær að njóta sín.
Áhersluþættir í öllu starfi með börnunum er: frumkvæði, sköpun og tjáning