Í daglegu starfi er lögð megináhersla á málörvun. Kennarar eru meðvitaðir um að eiga gagnvirk samskipti við börnin, spyrja opinna spurninga, setja orð á athafnir og taka þátt í samræðum þeirra. Með því eflist orðaforði til muna og málskilningur og máltjáning eykst.
Öll börn fara að minnsta kosti tvisvar sinnum á dag í samveru- og málörvunarstundir. Í þessum stundum er:
Sungið & lesið
Farið með vísur & ljóð
Farið í orða- & hlustunarleiki
Haldið uppi samtali
Leikið sér með ritmálið
Leikið sér með málhljóð Lubba
Leikið sér með rím & atkvæði
Lært ný orð með Orðaspjallsaðferð
Lubbi finnur málbein eflir hljóðavitund barna og kennir börnum málhljóðin í gegnum söng, leik og sögur. Með Lubba læra börnin að tengja saman hljóð og stafi og byrja börnin strax á yngstu deildum að kynnast Lubba.
Orðaspjallsaðferðin er leið til að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bókalestri. Þar velur kennari orð úr bók sem er lesin í samveru, yfirleitt er þetta orð sem börn nota ekki í sínu daglega tali og er merking orðsins útskýrð þegar það kemur fyrir í textanum. Að lestri loknum ræðir kennarinn orðið aftur, notar það í öðru samhengi og hvetur börnin til að leika sér með og nota það í daglegu tali.
Allir kennarar fylgjast náið með málþroska barnanna og grípa til ráðstafanna ef þörf þykir.
Á þriðja aldursári er skimað fyrir málþroska með TRAS skráningalista.
Á fjórða aldursári er skimað fyrir málskilningi og máltjáningu með EFI-2 skimunarlista.
Á síðasta ári í leikskóla er hljóðkerfisvitund metin með HLJÓM-2 prófi.