Í öllu starfi er leiknum gefið rými og tími en í gegnum leikinn öðlast börn nýja þekkinga, þjálfa nýja færni og nýta eigin upplifanir sem og upplifanir annarra barna til þess að móta sér skoðanir og sjálfsmynd.
Í Seljakoti er áhersla lögð á sjálfsprottinn leik sem byggir á hugmyndasköpun barnanna og að það séu þau sem leiða leikinn áfram án beinnar stýringar frá kennurum. Kennarar veita stuðning og fræðslu en það eru börnin sem nýta ímyndunaraflið, sköpunarkraftinn og löngun til þekkingar til þess að móta leikinn og þróa hann.
Sjálfsprottinn leikur ýtir undir löngun barna til þess að afla sér þekkingar, þau efla félagsfærni og umburðarlyndi í samspili við önnur börn, þau læra leikreglur og mynda vináttu. Kennarar eru alltaf börnunum innan handar og eru þátttakendur í leiknum á forsendum barnanna.
Börnin hafa aðgengi að fjölbreyttu leikefni sem eflir sköpun, frumkvæði og tjáningu. Lögð er áhersla á að leikefnið sé sýnilegt og í hæð barnanna þannig að þau geti sjálf valið sér verkefni eftir áhuga og líðan hverju sinni.
Í leikskólanum er nóg til af leikföngum fyrir öll börn og eiga því öll önnur leikföng að vera heima.
Börnin mega taka með sér bók í leikskólann sem þarf þá að merkja með nafni barns.