Rjúpur Helgu

Helga systir og Magga systir eru algjörir snillingar þegar kemur að mat!

Þessi uppskrift lýsir því hvernig Helga gerir sínar rjúpur.

Hamflettunin er a la Inga sys. Miklu skiptir að geyma rétt innyfli til að fá rétt bragð af sósu.

Undirbúningur og eldun

Láta rjúpurnar hanga í ca 10-14 daga (fer eftir hitastigi, ég set þær líka bara í ísskáp í viku og læt álpappír liggja laust yfir eldföstu móti til að kjötið nái að "anda" aðeins.).

Hamflettunin og matreiðslan:

  1. Setja rjúpurnar í kalt vatn og klippa af fætur rétt ofan við hné og vængi við lok breiðra vængja.
  2. Finna bringubeinið og þá kemur sarpurinn í ljós. Losa í kringum sarpinn þar til hann losnar alveg. Klæða síðan rjúpu úr ham. Klippa af haus.
  3. Losa innan úr rjúpu. Aðskilja sarp, hjarta, fóarnið og lifur og geyma.
  4. Skola allt nema sarpinn.
  5. Skera bringur frá og geyma – sjá lið 8.
  6. Steikja rest af rjúpu, hjörtun, fóarnið og lifur. Skella síðan í pott og sjóða í ca. 2-3 klst. Sía soð og búa til sósu.
  7. Baka upp sósu: Smjör, hveiti, soðið, bragðbætt með salti og hvítum pipar, smá gráðostur (lítið, ca. ½ msk.) og smá rifsberjasultu.
  8. Snöggsteikja bringur á miklum hita (smá blóðugar að innan). Setja síðan í eldfast mót og setja inn í ofn 200°C í ca. 10 mín. og hella smá sósu yfir.

Bera fram með rauðkáli, heitum ferskum perum m/berjasósu, brúnuðum kartöflum, waldorfsalati og rjúpusósu.