Hreindýrabollur

Klassískar hreindýrabollur með rjómasósu (af mbl.is)

Helga sys benti mér á þessa uppskrift og frw til mín. Mjög góðar.

Innihald

Bollurnar:

• 600 g hreindýrahakk

• 2 brauðsneiðar

• 1,5 dl mjólk

• 1 msk Worchester-sósa

• 1 msk “villijurtir” frá Pottagöldrum • ca 10 einiber

• 2 tsk sjávarsalt

• 1 tsk nýmulinn pipar

Rjómasósan:

• 2 dl hvítvín

• 2,5 dl rjómi

• 1 msk sojasósa

• 2 msk kálfafond frá Touch of Taste • 1 msk Worchesterr-sósa

• 2 msk sulta, t.d rifsberja

• 1 msk Dijon-sinnep

Aðferð

Skref eitt:

Setjið brauðið í skál ásamt mjólkinni og bleytið það vel. Myljið einiberin vel í morteli. Setjið kryddin í skál og blandið saman. Bætið kjötinu við og Worchester-sósunni og hrærið vel saman. Takið brauðið upp úr mjólkinni, maukið það í litla bita og blandið saman við kjötið. Mótið kjötbollur úr blöndunni.

Það er gott að geyma bollurnar í kæli í um klukkustund áður en þær eru eldaðar. Takið þær út úr ísskápnum og veltið upp úr hveiti.

Hitið olíu og smjör saman á pönnu og brúnið bollurnar í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Setjið í eldfast mót og inn í 180 gráða heitan ofn á meðan að þið gerið sósuna á sömu pönnu og bollurnar voru steiktar á.

Skref tvö:

Hitið pönnuna og hellið hvítvíninu út á ásamt kálfakraftinum, sojasósu og Worchester. Leysið skófarnar á pönnunni upp með sleif og látið vínið malla í smá stund eða þar til að það hefur soðið niður um tæpan helming. Bætið rjómanum út á og látið malla áfram á vægum hita þar til að sósan fer að þykkna. Bætið sultunni saman við. Alveg undir lokin er sinnepið pískað saman við.

Með þessu er gott að hafa pönnusteiktar kartöflur kryddaðar með kryddjurtum, t.d. rósmarín eða timjan.