Stigskiptur stuðningur

Stigskiptur stuðningur

Stigskiptur stuðningur (e. scaffolding) vísar til þess hvernig ferli kennslu frá kennarastýringu til sjálfstæðis nemenda fer fram. Kennari gerir og nemandi horfir á, kennari gerir og nemandi hjálpar, nemandi gerir og kennari hjálpar, nemandi gerir og kennari fylgist með að lokum deilir nemandi með öðrum það sem hann hefur lært. Með þessum stigskipta stuðningi öðlast nemandinn smátt og smátt færni til að leysa viðfangsefni.

Viðfangsefnin sem nemandinn fær eru þess eðlis að þau gera honum kleift að að byggja ofan á þann grunn sem hann hefur á svæði hins raunverulega þroska, með stuðningi kennara og getumeiri nemenda leysir hann ögrandi verkefni þar sem hann er að vinna að einhverju leyti upp fyrir sig en fær stuðning. Í upphafi kennslustundar leiðir kennarinn kennsluna með sýnikennslu og umræðum á því sem nemandinn á að vinna og síðan vinnur nemandinn verkefnið, smátt og smátt öðlast hann öryggi til að vinna sambærileg verkefni án leiðsagnar.

Mikilvægt er að nemandinn fái uppbyggilega leiðsögn og endurgjöf sem hjálpar honum til að skilja og framkvæma það sem hann hefði hugsanlega ekki getað gert upp á eigin spýtur (Rúnar Sigþórsson og Halldóra Haraldsdóttir, 2017, bls. 40–44; Wood, Bruner og Ross, 2006).


Heimildir

Rúnar Sigþórsson og Halldóra Haraldsdóttir. (2017). Byrjendalæsi. Í Rúnar Sigþórsson og Gretar L. Marinósson (ritstjórar), Byrjendalæsi Rannsókn á innleiðingu og aðferð (bls. 29–61). Háskólinn á Akureyri. Háskólaútgáfan.

Wood, D., Bruner, J. S. og Ross, G. (2006). The role of tutoring in problem solving. Journal of Child Psychology and Psychiatry, 17,(2), 89–100. Sótt af https://www.researchgate.net/publication/228039919_The_Role_of_Tutoring_in_Problem_Solving