Námsaðlögun

Námsaðlögun

Í skólanum er leitast við að mæta þörfum allra nemenda í námi. Kennarinn stendur frammi fyrir því vandasama verkefni að skipuleggja nám þannig að einstaklingsþörfum nemenda sé mætt innan bekkjarins. Í Byrjendalæsi er gengið út frá því að námsaðlögun sé félagslegs eðlis og nemendur fái tækifæri innan bekkjarins nám við sitt hæfi. Nemendur eru eins ólíkir eins og þeir eru margir. Þó að nemendur fái stigskiptan stuðning í sínu námi þá læra þeir á misjöfnum hraða og það sem hentar einum hentar ekki endilega næsta nemenda. Við undirbúning kennsluáætlunar þarf að huga að námsmarkmiðum sem geta verið víð eða þröng innan sama málaflokks og svo þeim margbreytilegu leiðum sem stuðla að því að markmið náist. Áður en verkefnavinna hefst getur góð samræða í hópnum eflt skilning nemenda. Fjölbreytt viðfangsefni og athafnamiðað nám er til þess fallið að efla námið. Huga þarf að einstaklingsnámskrám. Þær geta verið einfaldar og afmarkmaðar og gilt í skamman tíma. Þær geta verið samdar af kennara eða kennara og nemanda saman og eftir atvikum með foreldrum einnig (Rósa Eggertsdóttir. 2019).

Fyrir nemendur sem þurfa lengri tíma til að tileinka sér námsefnið eða tvítyngda nemendur gæti verið ein útfærsla að leyfa þeim að fá bók vikunnar í heimalestur áður en hún er tekin fyrir í skólanum. Í samvinnu við heimilin er þá búið að undirbúa þau orð sem unnið verður með í skólanum og gæti heimalesturinn t.d. falist í því að foreldrar lesa fyrir barnið og ræða orðaforðann sem taka á fyrir í þemanu með þessari bók. Þarna þarf að hafa í huga að gera þetta í samvinnu við heimilið þannig að allir séu með sama skilning á þessu ferli.

Heimildir

Rósa Eggertsdóttir. (2019). Hið ljúfa læsi. Rósa Eggertsdóttir