Hvað er Byrjendalæsi?

Samvirk aðferð í læsiskennslu

Byrjendalæsi er samvirk aðferð í læsiskennslu þar sem barnabækur og aðrir rauntextar gegna lykilhlutverki sem uppspretta fjölbreyttra viðfangsefna og námstækifæra. Aðferðin hefur verið í þróun í rúman áratug í samstarfi Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og tugi grunnskóla víðs vegar um landið.

Byrjendalæsi er byggt á samvirku læsislíkani. Samkvæmt því er gengið út frá að lestur byggist jöfnun höndum á færni í að umskrá bókstafi og orð, og sjálfstæðri merkingarleit þar sem lesandi nýtir meðal annars mál- og bakgrunnsþekkingu sína til að öðlast skilning á texta. Lesandi sem hefur mikla þekkingu á efninu sem hann les styðst í litlum mæli við umskráningu en virkjar þess í stað bakgrunnsþekkingu sína til að lesa og skilja texta. Ef lesandi þekkir viðfangsefnið aftur á móti lítið getur hann ekki kallað fram fyrri þekkingu um efnið og þarf þá að reiða sig mun meira á umskráningu til að lesa og skilja textann.

Kennsla samkvæmt samvirku læsislíkani einkennist af jafnvægi milli eindar- og heildaraðferða og áherslu á að flétta fjölbreyttar aðferðir til að fást við talmál, hlustun, lestur og ritun saman við mismunandi þætti læsis, svo sem umskráningu, hljóðvitund, ritun og lesskilning.

Í Byrjendalæsi er gert ráð fyrir að samspil og gagnvirkni, eins og lýst er að framan, þurfi að vera milli lesenda og texta til að lestur verði árangursríkur. Lesandi þarf að tengja það sem hann les við fyrri þekkingu sína og reynslu til að öðlast skilning og nýta við lesturinn vaxandi færni sína við umskráningu.

Grunnstoðir

Í Byrjendalæsi er lögð áhersla á að unnið sé jöfnum höndum með alla þætti máls; lestur, hlustun, tal og ritun í gegnum heildstæð og áhugaverð viðfangsefni.

Byrjendalæsi sækir innblástur til kenninga um hugsmíðahyggju og nám án aðgreiningar og gert er ráð fyrir að börn læri best í samfélagi jafningja, með samvinnu, stigskiptum stuðningi og hvers konar námsaðlögun sem auðveldar kennurum að koma til móts við ólíkar þarfir þeirra og áhugasvið.

Jafnframt byggir Byrjendalæsi á rannsóknum sem sýna hvað einkennir starfshætti kennara sem ná góðum árangri. Lögð er áhersla á að vandað sé til skipulagningar kennslu og að læsisnámið sé samþætt við aðrar námsgreinar. Kennarar gera kennsluáætlanir þar sem markmið, leiðir og mat er vandlega útfært og gerð er grein fyrir því hvernig nám og kennsla er aðlagað að ólíkum þörfum nemenda.

Talið er mikilvægt að nemendur séu meðvitaðir um eigin markmið og kunni gagnlegar leiðir til að ná þeim, í Byrjendalæsi eru markmið námsins gerð sýnileg, til dæmis á veggjum skólastofunnar og rædd við nemendur.

Áhersla er á athafnamiðað nám, fjölbreytni í kennsluháttum og í viðfangsefnum nemenda eru leikir og spil gjarnan nýtt sem leið að markmiðum. Mikil áhersla er einnig lögð á góðan aðgang nemenda að fjölbreyttu lesefni fyrir sjálfstæðan lestur.

Þrepin þrjú

Fyrsta þrep

Nám í Byrjendalæsi er skipulagt í þremur þrepum. Á fyrsta þrepi er texti lesinn fyrir nemendur eða hann kynntur fyrir þeim á annan hátt. Kennari byrjar á að sýna nemendum textann og vekja athygli á efni hans og hvetur nemendur til spurninga og vangaveltna. Síðan er textinn lesinn fyrir eða með nemendum og innihald hans rætt á ýmsa vegu. Nemendur skoða valin orð og merkingu þeirra, ræða ýmis álitamál og dýpka skilning sinn á efninu. Lagt er upp með að textinn sem notaður er í Byrjendalæsi sé fjölbreyttur, s.s. barnabækur, fræðitextar, myndefni og ljóð og að fjölbreytni sé í aðferðum við lestur, ritun og aðra miðlun. Kennarar velja textana út frá markmiðum hverju sinni og gæta þess að þeir höfði til nemenda. Við val á texta huga kennarar því meðal annars að félags- og menningarlegum fjölbreytileika nemendahópsins.


Annað þrep

Á öðru þrepi Byrjendalæsis er unnið með tæknilega þætti læsis svo sem samband stafs og hljóðs, umskráningu, réttritun og endurþekkingu orða. Efniviður í þá vinnu er sóttur í textann sem búið er að lesa og ræða á fyrsta þrepi. Úr textanum er jafnframt valið lykilorð sem er stökkpallur í þá tæknilegu vinnu sem fyrir liggur.


Þriðja þrep

Á þriðja þrepinu byggja nemendur upp heildstæðan texta. Þeir eru hvattir til að tjá eigin þekkingu og skoðanir á fjölbreyttan hátt og nota til þess aðferðir sem þeim hafa verið kenndar. Þeir semja nýja texta, s.s. sögur og ljóð, útbúa hugtakakort eða teikna og skrifa á þann hátt sem hentar markmiðum og lesendum hverju sinni.


Heimildir

Jenný Gunnbjörnsdóttir, Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir og Rúnar Sigþórsson. (2018). ... með Byrjendalæsi opnaðist nýr heimur tækifæra- Dæmi um skapandi læsiskennslu í 2. bekk. Skólaþræðir - Veftímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. Sótt af: https://skolathraedir.is/2018/01/28/med-byrjendalaesi-opnadist-nyr-heimur-taekifaera-daemi-um-skapandi-laesiskennslu-i-2-bekk/

Myndband um Byjendalæsi

Byrjendalæsi

Íslenska

Byrjendalæsi

Enska