Ég geri mér grein fyrir að hér súpi sumir hveljur. "Ég get aldrei dýft mér í kalt vatn eða farið í kalda sturtu!" er eitthvað sem ég hef oft heyrt síðan ég fór að stunda þetta og hvetja til að aðrir geri. Málið er að þetta er misskilningur, því þetta geta ALLIR!
Galdurinn er að mjaka sér rólega inn í þetta. Þú þarft ekki að byrja strax á að fara í 0°C klakabað eða í frosið stöðuvatn. Þú þarft ekki heldur að enda þar. Nýjustu rannsóknir sýna að líkamlegur ávinningur af köldu vatni næst á 30-90 sekúndum í vatni sem er 15°C eða kaldara.
Ávinningurinn getur verið margþættur m.a.:
Minnkaðar bólgur um allan líkama, en krónískar bólgur valda mörgum alvarlegum sjúkdómum
Minnkaðir verkir, t.d. eftir líkamlega áreynslu
Aukin framleiðsla dópamíns í heilanum sem hefur jákvæð geðræn áhrif t.d. spornar gegn þunglyndi
Lægri hjartsláttur en meira blóðflæði
Aukin þrautseigja (ef þú getur þetta, getur þú allt)
Virkjun brúnfitu og þar með stjórnun hitastigs í líkamanum.
Hér skiptir ekki máli hvort valið er að fara í kaldan pott, sjósund, kalt stöðuvatn eða kalda sturtu. Raunar er, til að byrja með, gott að byrja í kaldri sturtu þar sem iðkandinn getur haft nákvæmari stjórn á hitastigi vatnsins. Það er mikilvægt að ná stjórn á öndun og streituviðbragðinu sem fylgir kuldatilfinningunni ÁÐUR en þú hættir. Ofar öllu ætti samt að fara varlega og fara sér ekki um of, þetta er ekki keppni. Það er samt lygilegt hvað þú verður fljótt að venjast.
Smelltu hérna til að sjá Wim Hof fjalla um kuldann í viðtali við Dr. Chatterjee í þættinum Feel better, live more.
Miklar upplýsingar um kuldameðferð er að finna á netinu ef þú leitar að "Cold water therapy". Áhugasöm eru hvött til að gera það. Eins eru aðilar hér á landi sem halda námskeið til að leiða fólk inn í þetta á öruggan hátt.