OK, ég veit. Þetta er frekar augljóst og fyrirsjáanlegt, en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Ég tek enga afstöðu með eða á móti ákveðinni tegund af hreyfingu. Hér langar mig bara að deila því hvað ÉG geri til streitulosunar fyrst og fremst. Kannski hentar sama hreyfing einhverjum, öðrum ekki. Aðal atriðið er að finna hreyfingu sem hentar og gefa henni rými daglega.
Mín uppáhalds hreyfing til að hreinsa hugann er ganga. Þá skiptir ekki máli hvort gangan sé hröð eða hæg, löng eða stutt, einn eða með öðrum. Aðal atriðið er að hún sé ánægjuleg. Oft nota ég manngerða göngustíga þar sem það er afar hentugt þar sem ég bý, en allra best er að labba í náttúrulegu landslagi, með ójöfnu undirlagi, hvort sem er fjallganga eða í skógi eða móum. Út frá því sem ég hef heyrt og lesið er það ekki síst þessi taktfasta, endurtekna hreyfing sem felst í göngunni sem hjálpar heilanum að ná tilfinningajafnvægi (regulate emotions and stress).
Oftast nota ég tímann á göngunni til að hlusta á hljóðbækur eða long-form hlaðvörp um áhugaverð málefni sem mér gefst annars sjaldan tími til að gera öðrum stundum. Mitt uppáhalds hlaðvarp er Feel better, live more sem stjórnað er af Dr. Rangan Chatterjee, lækni sem leggur áherslu á fyrirbyggjandi þætti og heildræna nálgun á heilbrigði. Ég hvet ykkur til að kíkja á það, annaðhvort á Spotify eða Apple Podcast.
Þær er allar að finna á Storytel
The Power of Now eða Krafturinn í núinu.
Bók sem breytir lífi þínu. Vildi óska að ég hefði lesið þessa fyrr en ég gerði.
The Body Keeps the Score eða Líkaminn geymir allt.
Ítarleg umfjöllun um áfallastreytu, einkenni hennar og sögu. Hér er meðal annars velt upp þeirri spurningu hvort hluti fólks með greiningar á borð við ADHD, einhverfu o.fl. gætu mögulega þjáðst í reynd af áfallastreytu.
What Happened to You?
Æ stærri hluti kennarastarfsins er að fylgjast með líðan nemenda og hjálpa þeim að fóta sig. Hér er spurningunni "Hvað er að þér?" umbylt og breytt í "Hvað kom fyrir þig?". Þessi breyting hefur hjálpað mér að sjá nemendur með hegðunarvanda í nýju ljósi.
The Subtle Art of Not Giving a F%#&!
Skemmtileg nálgun á æðruleysi sem fjallar á heimsspekilegan hátt um það hvernig maður getur á einfaldan hátt brynjað sig fyrir ýmsu sem gengur á í kringum okkur. Einnig er til framhald af þessari bók sem heitir Everything is F%c#ed sem ég mæli ekki síður með.
Í mínum huga er golf hin fullkomna hreyfing fyrir líkama og sál (sérstaklega líkama sem er kominn af léttasta skeiði). Golf sameinar svo margt: náttúrulega hreyfingu, útiveru, ferskt loft, þjálfun einbeitingar og þolinmæði, núvitund og auðvitað samveru ef spilað er með öðrum. Þar fyrir utan þá er golf frábær brennsla, en samkvæmt rannsóknum getur meðalmaður brennt um 1500 kaloríum á 18 holu hring. Svo er hér auðvitað um að ræða sumarsport á Íslandi sem er afar hentugt fyrir kennara.