Eftirfylgni með verkefninu

ALLIR SEM VINNA Í LEIKSKÓLA

BERA ÁBYRGÐ Á ÞVÍ STARFI SEM ÞAR FER FRAM

Mikilvægt er að þróunarverkefnið Snemmtæk íhlutun – mál og læsi festist í sessi og sé virkt til framtíðar með áherslu á heildstæða skólastefnu. Til þess að það geti orðið þarf að setja upp áætlun um hvernig skuli viðhalda því vinnulagi sem skráð er í handbækur leikskólanna. Starfsmannavelta er töluverð í leikskólum og ástæða til að kynna verkefnið reglulega og markvisst í upphafi hvers skólaárs, bæði fyrir nýju starfsfólk og að eldra starfsfólk rifji upp verkferla og vinnulag leikskólans.

Skýr verkferill mun sýna fram á hvernig leikskólarnir geti viðhaldið og fylgt þeirri stefnu sem þróunarverkefnið hefur markað. Slíkur verkferill heldur utan um hlutverk hvers og eins innan leikskólanna og hvenær þarf að byrja íhlutun. Í kjölfar greininga, prófana og skimana þarf alltaf að fara fram markviss íhlutun. Ábyrgð á áherslum sem koma fram í handbókum leikskólanna er á höndum leikskólastjóranna sem dreifa henni eins og hentar best á hverjum stað fyrir sig.

Tilgangur þessarar handbókar er að allir starfsmenn tileinki sér vinnubrögð til að efla mál og læsi allra nemenda leikskólans. Það er gert með því að grípa allar aðstæður í leik og starfi allan daginn. Það þarf að skapa tækifæri til samskipta og samtals við nemendur yfir leikskóladaginn. Allir starfsmenn eru ábyrgir fyrir þessari vinnu því í leikskóla eru allir starfsmenn móðurmálskennarar.

Á hverju skólaári fá bæði starfsfólk og foreldrar fræðslu um þróun málþroska og hvernig megi efla mál og læsi allan daginn í öllum aðstæðum.

GLEÐI - JÁKVÆÐNI - VINÁTTA