Lokaorð

Á árunum 2019-2021 tóku leikskólarnir fimm á svæði Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu þátt í þróunarverkefni í samstarfi við Ásthildi Bj. Snorradóttur talmeinafræðing. Þróunarverkefnið snerist um snemmtæka íhlutun í máli og læsi leikskólabarna. Snemmtæk íhlutun skiptir miklu máli þegar kemur að þroska leikskólabarna ekki síst hvað varðar mál og læsi.

Hugmyndavinnan var unnin af Ásthildi Bj. Snorradóttur talmeinafræðingi og Halldóru Guðlaugu Helgadóttur leikskólaráðgjafa sem sá um útlitshönnun verksins og kann ég þeim bestu þakkir fyrir allan þann innblástur, hvatningu og jákvæðu strauma sem þær hafa gefið mér. Halldóra á mikinn þátt í að þessi handbók varð að vefsíðu. Einnig kom hugmyndavinnan frá starfsfólki Mánalands, þeim systrum Bergnýju Ösp Sigurðardóttur og Árnýju Hlín Sigurðardóttur og er útkoman þessi handbók í Snemmtækri íhlutun í máli og læsi. Handbókin er hugsuð sem hluti af skólanámsskrá Mánalands og markar mögulega upphaf endurskoðunar á henni og eflingu leikskólastarfs í Vík í Mýrdal. Handbókin er lifandi plagg sem mun taka sífelldum breytingum eftir því sem leikskólastarfið í Mánalandi þróast og eflist.

Áhersla var á að bókin væri aðgengileg fyrir bæði starfsfólk og foreldra. Næst er að venja sig á að vinna eftir þeim línum sem þessi bók leggur. Innleiðing á handbókinni ásamt því að kynna innihaldið fyrir foreldrum og upplýsa um mikilvægi meðferðarheldni þegar kemur að málörvun leikskólabarna. Eftir því sem meiri áhersla er lögð á fyrsta skólastigið, leikskólann, því líklegra er að takist að draga úr eða jafnvel koma í veg fyrir námserfiðleika. Með útgáfu þessarar handbókar í formi vefsíðu er einlæg ósk okkar starfsfólks Mánalands að handbókin reynist sú lyftistöng fyrir starfið sem við teljum að hún geti orðið.

Dagný Rut Gretarsdóttir, starfandi leikskólastjóri Mánalands

Í lokin geri ég orð frú Vigdísar Finnbogadóttur að mínum og segi:

Fátt er vænlegra til árangurs í lífinu en að saman fari

þekking og að tala skýrt og gott mál.

Jafnframt er það mikill gleðigjafi að hafa góð tök á móðurmálinu.

GLEÐI - JÁKVÆÐNI - VINÁTTA