Viðbrögð við frávikum

Á myndinni má sjá hvernig Mánaland vinnur þegar grunur um frávik í málþroska vaknar. Sömu verkferlar gilda þegar grunur vaknar um önnur frávík.

Þegar brugðist er við frávikum í málþroska

er áhersla á gott samstarf milli foreldra og leikskóla

Á Mánalandi eru eftirfarandi athuganir gerðar til viðbótar hefðbundnum athugunum þegar grunur um frávik vaknar. Námsmarkmiðablað er einnig notað þegar frávik koma fram í hefðbundnum notkun matstækja svo sem TRAS, Orðaskil og Hljóm-2.

Námsmarkmiðablað

Ef grunur er um frávik í málþroska nemenda á leikskólanum Mánalandi eða upp koma erfiðleikar í hegðun eða líðan, ræða deildarstjóri og sérkennslustjóri saman um úrræði, gera áætlun og boða foreldra í viðtal.

Farið er strax í íhlutun sem fer eftir eðli fráviks hverju sinni. Íhlutun getur verið í formi málörvunarstunda einstaklingslega, í fámennum hópi eða inni á deild. Fylgst er með framvindu, hún skráð niður og farið yfir stöðuna aftur eftir sex vikur.

Íslenski smábarnalistinn

Smábarnalistanum er ætlað að meta mál- og hreyfiþroska 15 mánaða til 38 mánaða barna með því að afla upplýsinga frá mæðrum þeirra. Mæður svara stöðluðum spurningum um mál- og hreyfifærni barna sinna á þeim tíma þegar listinn er fylltur út. Þeir sem hafa lokið réttindanámskeiði um Smábarnalistann mega nota listann.

Smábarnalistinn er eina staðlaða matstækið hérlendis til að meta mál- og hreyfiþroska barna yngri en þriggja ára. Hann hefur því nokkra sérstöðu á meðal þeirra matstækja sem hægt er að nota við þroskamat á ungum börnum. Listinn getur komið að góðum notum við þroskamat á barni og við reglubundið mat á þroska barns.

Í Smábarnalistanum eru 144 staðhæfingar um mál- og hreyfiþroska barna. Meðaltal hreyfi- og málþáttar er 100 og staðalfrávik 15. Listinn samanstendur af fimm undirprófum og gefa heiti þeirra til kynna hvaða svið þau meta. Þessi fimm undirpróf skipa sér á tvo prófþætti: (1) Hreyfiþátt og (2) Málþátt. Heildartala listans, þroskatala, er gerð af öllum fimm undirprófum hans (Einar Guðmundsson og Sigurður J. Grétarsson, 2005).

Prófþættirnir eru:

  • Grófhreyfingar

  • Fínhreyfingar

  • Sjálfsbjörg

  • Hlustun

  • Tal

Íslenski þroskalistinn

Íslenska þroskalistanum er ætlað að meta þroska þriggja til sex ára barna með því að afla upplýsinga frá mæðrum þeirra. Mæður svara stöðluðum spurningum um mál- og hreyfifærni barna sinna á þeim tíma þegar listinn er fylltur út. Þeir sem hafa lokið réttindanámskeiði um Íslenska þroskalistann mega nota listann.

Undirprófunum sex á Íslenska þroskalistanum er deilt niður á tvo prófþætti, Hreyfiþátt og Málþátt. Hreyfiþáttur er settur saman úr undir­prófunum Grófhreyfingar, Fínhreyfingar og Sjálfsbjörg. Hreyfiþáttur er mælikvarði á almenna hreyfifærni barns að mati móður. Málþáttur er settur saman úr undirprófunum Hlustun, Tal og Nám. Málþáttur er mæli­kvarði á almenna færni barns á málsviði að mati móður. Meðaltal hreyfi- og málþáttar er 100 og staðalfrávik 15. Þroskatala er mælikvarði á almennan þroska barns. Þessi tala er sett saman úr öllum undirprófum þroskalistans og er því samantekt á mati móður á þroska barns. Þroskatala er yfirgripsmesta mælitala listans. Meðaltal þroskatölu er 100 og staðalfrávik 15 (Einar Guðmundsson og Sigurður J. Grétarsson, 1997).

Staðhæfingum í Íslenska þroskalistanum, 208 talsins, er skipt niður á sex undirpróf hans:

  • Grófhreyfingar

  • Fínhreyfingar

  • Sjálfsbjörg

  • Hlustun,

  • Tal

  • Nám

sniðmát einstaklingsnámskrá.pdf

Einstaklingsnámskrá

Einstaklingsnámskrá er ítarleg áætlun fyrir nemanda með mikil frávik sem unnin er af kennara og sérkennara í samráði við foreldra.

Einstaklingsnámskrá byggir á aðalnámskrá en felur oft í sér veruleg frávik frá henni og tekur til markmiða, inntaks og leiða fyrir ákveðið tímabil.

Einstaklingsnámskrá byggir jafnframt á viðmiðum, greinandi prófum og skimunarprófum.

AEPS - færnimiðað matskerfi

AEPS-matskerfið (e. Assessment, evaluation and pro-gramming system for infants and children) er ætlað til að meta getu barna frá fæðingu til sex ára aldurs og hvaða færni barnið þarf aðstoð við að þjálfa. AEPS skoðar sex þætti; fín- og grófhreyfingar, athafnir daglegs lífs, vitsmunaþátt, félagsleg tjáskipti og félagsleg samskipti. Niðurstöður AEPS auðvelda starfsfólki með að ákvarða hvaða þroskaþætti þarf að þjálfa og er góð undirstaða þegar verið er að skipuleggja viðeigandi inngrip ásamt því að gerð einstaklingsnámskráa verður auðveldari. Matskerfið er byggt upp með áherslu á gott samstarf milli foreldra og leikskóla þegar markmið inngrips eru ákvörðuð (Bricker, 2002).

AEPS-matskerfið er hagnýtt tæki sem nýtist við gerð einstaklingsnámskrár. Lögð er áhersla á samstarf foreldra og fagfólks við gerð markmiða og sérstakur matslisti fyrir foreldra fylgir. AEPS nýtist til að meta færni barna á sex þroskasviðum: Fín- og grófhreyfingum, vitrænum þáttum, aðlögun, félagslegum tjáskiptum og félagslegu samspili. Foreldrar og starfsfólk leggja listann fyrir og nýta niðurstöður við gerð einstaklingsnámskrár og skipuleggja íhlutun í framhaldinu.

Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur- Skaftafellsýslu

Ef niðurstöður skimana og matstækja gefa til kynna erfiðleika barns í málþáttum er hægt að vísa barninu til sérfræðiþjónustu Skólaþjónustu Rangárvalla og Vestur-Skaftafellssýslu. Þar starfar m.a. talmeinafræðingur sem sér um að meta börnin nánar hvað varðar málþroska þ.e. málskilning, máltjáningu og framburð.

Þegar greining talmeinafræðings liggur fyrir er niðurstöðum skilað til foreldra og starfsmanna skólans og veitt ráðgjöf um framhald. Það geta verið inngrip eins og aukin einstaklingsþjálfun, þjálfunartímar hjá talmeinafræðingi eða önnur úrræði eftir þörfum, til að efla málþroska eða leiðrétta framburð og hljóðkerfisvitund.

GLEÐI - JÁKVÆÐNI - VINÁTTA