Málþroski barna


ÞVÍ LÆRA BÖRNIN

MÁLIÐ

SEM FYRIR ÞEIM ER HAFT

Málþroski felur í sér meðal annars orðaforða, framburð, setningaskipan og beygingar. Hluti af góðum málþroska er að hafa góðan málskilning, sterka hljóðkerfisvitund og að kunna viðeigandi boðskipti. Barn þarf að öðlast hæfni í öllum þessum þáttum, sem tengjast og vinna saman, til þess að þróun máls verði eðlileg (Ásthildur Bj. Snorradóttir og Sigurlaug Jónsdóttir, 2000).

Tengslamyndun og tilfinningalegt samband barns og umönnunaraðila eru meginstoðir tungumálanáms á fyrstu mánuðum í lífi barns. Í framhaldinu skiptir máli að umönnunaraðilar noti gott og rétt mál, marbreytilegan orðaforða og lesi fjölbreyttar bækur sem hæfa aldri og þroska. Lestur og samskipti ýta undir fjölbreyttari orðaforða því barn lærir móðurmál sitt með því að hlusta á og tala við sína nánustu og aðra í umhverfinu (Sigríður Sigurjónsdóttir, 2019). Í móðurmálsuppeldi er endurtekning mikilvægur þáttur því börn hlusta á þá sem annast það, leika sér að hljóðum og og endurtaka (Hrafnhildur Sigurðardóttir, e.d.). Sameinuð athygli með augnsambandi gegnir veigamiklu hlutverki í því að barn geti áttað sig á merkingu orða og fyrirætlunum þeirra sem það á í samskiptum við (Brooks og Kempe, 2012; Degotardi o.fl. 2016). Fyrstu orðin sem börn nota ákveðið til boðskipta við aðra koma í kringum 10-18 mánaða og má segja að fyrstu fjögur æviár barna feli í sér þróun frá hljóðum yfir í orð, úr orðum í setningar og áfram þangað til þau geta tjáð sig nærri fyrirhafnarlaust (Þóra Másdóttir og Friðrik Rúnar Guðmundsson, 2015). Það tekur börn tiltölulega stuttan tíma að tileinka sér orðaröð móðurmálsins og villur eru sjaldgæfar en meiri tíma virðist taka að ná tökum á beygingum orða þar sem íslenska er mikið beygingarmál. Þegar börn hafa farið í gegnum öll stig máltökunnar líkist mál þeirra að mestu máli fullorðinna og teljast þau þá hafa náð fullum tökum á móðurmáli sínu.

Samhliða málskilningi þróast hlustunarskilningur og síðar lesskilningur, Með hlustunarskilningi er átt við þann skilning sem barn leggur í frásögn. Það sama á við um lesskilning nema þar er um að ræða skilning barns á texta. Til þess að leggja skilning í lengri einingar máls þarf barnið bæði að hafa stjórn á eigin hugsunum og geta dregið rökréttar ályktanir um efni frásagnar eða texta. Rannsóknir á hlustunarskilningi hafa síðan sýnt fram á tengsl hans við orðaforða og þekkingu á málfræði (Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 2015). Þessir þættir þróast í tengslum hver við annan og eigi barn að ná viðunandi færni í notkun tungumálsins þurfa þessir þættir að þróast samhliða hver öðrum. Rannsóknir hafa sýnt að næmni fullorðinna aðila í nærumhverfi barnsins hefur jákvæð áhrif á þróun hlustunarskilnings. Því skiptir máli að hinir fullorðnu séu vakandi fyrir tilraunum barnsins til samskipta (Otto, 2018). Persónuleg og gagnkvæm samskipti með sameiginlegri athygli eru því mikilvægir þættir sem ýta hvað mest undir málskilning (Sigríður Sigurjónsdóttir, 2019).

Mál og málörvun fer fram í samskiptum, í gegnum leik og starf. Efling málþroska krefst hlustunar af hálfu barna, þau þurfa að hlusta eftir þeim samskiptum sem fara fram í leiknum og bregðast við (Bee og Boyd. 2004). Leikur ýtir undir alhliða þroska barna; vitsmuna-, tilfinninga-, mál-, félags- og líkamsþroska. Í leik æfa börn sig að tjá hugsun sína, börn með litla máltjáningu geta tjáð vilja sinn gegnum leik og tengsl við fullorðna eflast að sama skapi. (Woodo.fl. 2011). Leikur styður við þróun læsis og gegnir því stóru hlutverki í málörvun í leikskólastarfi. Ef börn fá tækifæri til að leika sér í frjálsum og óheftum leik án skipulagningar, með eða án þátttöku hinna fullorðnu skapar það jafnvægi í þroska þeirra í gegnum æskuárin (Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, 2000). Það skiptir sköpum að vinna markvisst í leikaðstæðum og leyfa börnum að uppgötva málið í gegnum skemmtilega málörvun sem er útfærð í gegnum leik og viðhöfð í daglegum aðstæðum í leikskólanum. Allt starfsfólk leikskólans þarf að leggja sig fram við að vera góðar málfyrirmyndir og að gera sér grein fyrir mismunandi stöðu barna hvað varðar málþroska (Ásthildur Bj. Snorradóttir o.fl. 2014). Til þess að gera sér grein fyrir mismunandi getu barna í málþroska er mikilvægt að hafa góðar bakgrunnsupplýsingar varðandi stöðu barns í málþroska við upphaf skólagöngu ásamt því að vera meðvitaður um stöðu barnsins í mismunandi málþáttum sem skapa órófa heild í þróun á góðum málþroska.

Málskilningur er háþróuð færni sem byggir á heyrnar- og sjónskyni. Þegar börn læra að lesa þurfa þau að geta byggt á ákveðnum grunni til að geta gert sér í hugarlund aðstæður sem þau lesa um. Börn með málþroskafrávik eiga oft erfitt með að þekkja tilfinningar, skilja tengsl orsakar og afleiðingar, sem getur haft áhrif á að geta túlkað lestexta síðar á ævinni. Þá getur þetta haft áhrif á færnina við að búa til skema sem er mikilvægt fyrir mál-og lesskilning (Brinton og Fujiki, 2006; Westby, 2006). Þessi grunnur er lagður hjá ungum börnum í gegnum leik. Í leiknum búa þau til skema sem er eins konar innra handrit og er geymt í minni. Það sýnir tengsl hluta og alhæfða þekkingu tengda atburðum, aðstæðum, hlutum og texta (Singh og Kent, 2000). Táknrænn leikur og ímyndun sem þróast í hlutverkaleik byggir upp skemafyrir málskilning. Góður lesskilningur byggir síðan á málskilningi og orðaforða (Ásthildur Bj. Snorradóttir, 2010). Mál og lestur eru tvær hliðar á sama peningi. Góður málþroski er alger undirstaða fyrir lestur.

Byggt að hluta á bókinni: Snemmtæk íhlutun í málörvun tveggja til þriggja ára barna (Ásthildur Bj. Snorradóttir o.fl., 2014) og óútgefinni meistararitgerð: „Með hugann við efnið“ Starfendarannsókn um mállörvun ungra barna, Kristín Ósk Ómarsdóttir, 2020).

GLEÐI - JÁKVÆÐNI - VINÁTTA