Kennsluefni og aðferðir

Allir sem vinna í leikskóla bera faglega ábyrgð

því allir geta lært

Bínureglur

Boðskiptaþættir Bínu koma upprunalega úr bókunum um Bínu bálreiðu eftir Ásthildi Bj. Snorradóttur talmeinafræðing. Sögupersónan Bína, sem er dúkka, veit ekki hvernig á að haga sér og verður því stundum reið og kastar sér öskrandi í gólfið. Í framhaldinu lærir hún undirstöðuþætti boðskipta og þá fer henni að líða betur. Börn með málþroskaraskanir geta í átt í erfiðleikum með að hlusta, stjórna eigin hegðun og eru jafnvel talin óhlýðin og erfið í samskiptum. Sýnt hefur verið fram á að hegðunarvandi barna geti þróast vegna þess að þau eru með málþroskaröskun og eiga erfitt með að tjá sig með orðum (Ásthildur Bj. Snorradóttir, e.d.).

Mánaland nýtir boðskiptareglur Bínu á eftirfarandi hátt:

  • Á öllum deildum leikskólans er notast við boðskiptareglur sen með þeim er börnum kennd viðeigandi boðskipti þar sem það er afar mikilvægur undirstöðuþáttur til að þróa eðlilegan málþroska.

  • Á hverri deild eru reglurnar sýnilegar á myndrænu formi og eru þær rifjaðar upp í daglegu leikskólans t.d. í upphafi hópastarfs, í matartímum, fataklefa og í samveru- og málörvunarstundum.

  • Í yngsta hópum er aðaláherslan á að læra að hlusta en eftir því sem nemendur eldast bætast við feiri boðskiptareglur.

Tákn með tali

Tákn með tali (TMT) er tjáskiptaaðferð sem upphaflega var þróuð fyrir nemendur með mál- og þroskaröskun. Aðferðin byggir á einföldum hreyfitáknum sem notuð eru á markvissan hátt til stuðnings töluðu máli. Táknin gera málið sýnilegt og styðja þannig við töluðu orðin. Táknin vara lengur en orðin sem hverfa um leið og þau eru sögð. Það gefur viðkomandi lengri tíma til að skilja það sem sagt er. Um er að ræða náttúruleg tákn svo sem bendingar, látbragð og svipbrigði að viðbættum táknum úr táknmáli heyrnarlausra. Táknin eru oftast myndræn og lýsandi og því auðskilin. TMT er í raun eðlilegt framhald af þeim tjáningarmáta sem flest ung börn hafa og ráða við löngu áður en þau hafa þroska til að mynda töluð orð. Áherslan er lögð á að tákna lykilorð hverrar setningar. TMT nýtist fólki á öllum aldri sem hefur tal- og málörðugleikaaf öðrum orsökum en heyrnarleysi. Undanfarin ár hefur komið í ljós að aðferðin nýtist vel í fjölmenningarlegu umhverfi til dæmis í leik- og grunnskólum. Aðferðin er málörvandi fyrir öll ung börn og því óhætt að hvetja foreldra og kennara ungra barna að nota TMT sem skemmtilegt málörvunartæki sem um leið hjálpar þeim sérstaklega sem á þurfa að halda (Sigrún Grendal Magnúsdóttir, 2018).

Mánaland vinnur í að innleiða Tákn með tali tjáskiptaaðferðina.

  • Í söngstundum er sungið með táknum

  • Aðaláhersla er á að nota TMT við hádegismatarborðið

  • Þegar allir eru orðnir öruggir með matartímana þá verður bætt við notkun TMT þar til að TMT verður notað í allri starfsemi skólans

Sjónrænt dagsskipulag

Sjónrænt dagskipulag er hluti af aðferð sem kallast skipulögð kennsla (TEACCH). TEACCH - er skammstöfun sem stendur fyrir Treatment and Education of Autistic and related Communications Handicapped Children, eða meðferð og kennsla barna með einhverfu og skyldar boðskiptatruflanir.

Hér er um að ræða alhliða þjónustulíkan fyrir fólk með röskun á einhverfurófi og fjölskyldur þeirra. Þjónustan miðast við alla aldurshópa allt frá snemmtækri íhlutun (early intervention) til fullorðins ára (Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, e.d. )

  • Sjónrænt dagskipulag gagnast þeim vel sem þurfa aðstoð við að skipuleggja hugsanir og röð atburða.

  • Sjónrænar vísbendingar eru mikilvægar til að aðstoða barn í ýmsum aðstæðum í daglegu lífi.

  • Þær einfalda nám, breytingar og yfirfærslu og beina athygli að því sem skiptir máli.

  • Sjónrænt dagskipulag á Mánalandi hefur margvísan tilgang, til að mynda er notast við myndir á renningi sem sýnir almennt dagsskipulag og/eða töflu sem lýsir nákvæmlega atburðarrás ákveðinna athafna sem eiga sér stað yfir daginn.

  • Hvernig sjónrænt skipulag er lagt upp mótast af því barni sem talið er hafa þörf fyrir það.

Lubbi finnur málbein

Hljóðasmiðja Lubba byggir að stórum hluta á doktorsrannsókn Þóru Másdóttur (2008) um hljóðþróun ungra barna sem og á nýrri rannsókn um framburð 2 - 8 ára barna (Þóra Másdóttir, 2014). Lubbi finnur málbein er íslenskt efni sem hjálpar börnum, tveggja til sjö ára, að læra íslensku málhljóðin. Lubbi er íslenskur fjárhundur í lopapeysu sem ferðast um landið í leit að hundabeinum með íslensku málhljóðunum (Eyrún Í. Gísladóttir og Þóra Másdóttir, 2009). Þær stöllur eru báðar talmeinafræðingar og höfðu starfað við talþjálfun barna í áratugi áður en þær bjuggu Lubbaefnið til. Málhljóðin eru kennd í þeirri röð sem flest börn ná tökum á þeim. Hvert málhljóð notast við lag, vísu eða örsögu, og tákn eða hreyfingu til kennslu (Eyrún Í. Gísladóttir og Þóra Másdóttir, 2009).

  • Í Mánalandi er kynntur í hverri viku bókstafur, hljóð, orð og tákn vikunnar, þá lesum við söguna um þann staf/hljóð ásamt verkefnum. Starfsfólk leikskólans notar Lubbaefnið í hópastarfi með fámennum hópi einu sinni til tvisvar í viku.

  • Lubbastund:

    • Starfsfólk og börn setjast í hring og segja Velkomin í Lubbastund

    • Hvert barn heilsar Lubba og segir og táknar nafnið sitt - Lubbi knúsar-heilsar hverju barni

    • Farið er yfir bókstafinn og hljóðið sem við kennum Lubba í dag

    • Hlustum á Lubbalagið sem fylgir hverjum bókstaf/hljóði - eins oft og við viljum - sitjum - dönsum

    • Vinnum með spil-leiki-hreyfingu-hljóðabox-myndaspjöld-orð úr sögunni-listasköpun

    • Gott að rifja upp bókstafinn og hljóðið sem við unnum með

    • Endir á stundinni (slökun-yoga-ef vill) þökkum fyrir stundina Takk fyrir Lubbastund í dag og við kveðjum Lubba með knúsi

Vináttuverkefnið Blær

Vinátta byggist á nýjustu rannsóknum á einelti og á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem mikilvægt er að séu samofin öðru starfi þeirra skóla sem vinna með efnið. Auk þess byggir Vinátta á raunhæfum verkefnum fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Þátttaka allra í þessu er grundvöllur þess að vel takist til. Gert er ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þessi grunngildi við vinnu og í samskiptum innan skólasamfélagsins. Hugmyndafræðin endurspeglast í eftirtöldum fjórum gildum:

Umburðarlyndi Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.

Virðing Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða margbreytileikann innan hópsins.

Umhyggja Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.

Hugrekki Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti (Barnaheill, e.d.).

  • Í Mánalandi notum við Blæ bangsa í hvíld og hvenær sem nemendur þurfa á öryggi að halda eða vilja.

  • Starfsfólk leikskólans notar mismunandi spjöld (miðað við aldur) sem rætt er um um á yngri og eldri deild.

  • Myndir sýna raunsannar aðstæður sem ýmist, börn, starfsfólk eða foreldrar geta upplifað.

  • Spjöldin eiga það sameiginlegt að fjalla öll um gildin í Vináttu Barnaheilla.

Orðagull - bók/smáforrit

Bók

Námsefnið Orðagull felur í sér verkefni sem orðforða, málþroska, vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu og lesskilning. Verkefnin eru góð til að ný orð í minni er mjög mikilvægt að nemandinn fái að vinna með orðin nokkrum sinnum og á mismunandi hátt. Bókinni fylgir USB-lykill þaðan sem hægt er að prenta út vinnublöð nemenda. Höfundar Orðagulls eru talmeinafræðingarnir Ásthildur Bj. Snorradóttir og Bjartey Sigurðardóttir og myndrænu hliðina annaðist Búi Kristjánsson (Orðagull, e. d.).

  • Í Mánalandi er kennsluefnið Orðagull notað í hópastarf fyrir elstu börnin.

Smáforrit

Orðagull er einnig til sem smáforit. Með því að vinna með appið og verkefnabókina samhliða næst þessi endurtekning á jákvæðan og fjölbreytilegan hátt. Einnig er hægt að vinna með valin verkefnin úr bókinni í leikskólanum og síðan hafa sömu borð í appinu sem heimaverkefni (Orðagull, e. d.).

  • Í Mánalandi hefur starfsfólk leikskólans nýtt smáforritið til kennslu í sérkennslu.

Gefðu 10

Mörg börn sem byrja í leikskóla á Íslandi og tala annað móðurmál en íslensku byrja að læra íslensku sem annað mál í leikskólanum. Fyrst ná börnin tökum á einföldu samskiptamáli en smátt og smátt eykst orðaforði þeirra, þau ná meiri hæfni í tjáningu og skilja flóknari setningar. Það tekur fjöltyngd börn 1–2 ár að ná góðum tökum á samskiptaorðaforða í nýju tungumáli en um 5–7 ár eða jafnvel lengur að ná tökum á dýpri orðaforða, stundum kallaður skólaorðaforði (Fríða B. Jónsdóttir, e. d.).

  • Í Mánalandi eru notaðir gátlistar sem starfsmenn skrá í þegar þeir hafa gefið nemendum tíma. Unnið er eftir lista sem hver starfsmaður fær

  • Starfsmaður gefur hverjum nemanda tíma þar sem hann einbeitir sér að honum, m. a. að lesa fyrir nemendann eða tala við hann án truflunar

Orðaforðalisti Menntamálastofunar

Menntamálastofnun setti saman orðasafn sem hugsað er fyrir leikskólakennara að styðjast við þegar þau vinna að eflingu orðaforða barna. Orðaforðalistinn inniheldur hugtök sem æskilegt er að börn á leikskólaaldri hafi á valdi sínu. Í safninu eru orð úr nánasta umhverfi barnsins og helstu orð sem koma fyrir í lífi og starfi barna á leikskólaaldri.

Orðaforðalistanum er skipt upp í tvo aldursflokka, þriggja ára og yngri og svo 6 ára og yngri (Orðaforðalisti, 2017).

  • Í Mánalandi er farið reglulega yfir listann í samverustund með börnunum til þess að útskýra orð sem þau vita ekki hvað þýða

  • Listinn er notaður í öllu starfi leikskólans til að efla orðaforða og málþroska nemenda

  • Leitast er við að gera orðaforðann í listanum eins sýnilegan í umhverfinu og hægt er

GLEÐI - JÁKVÆÐNI - VINÁTTA