Snemmtæk íhlutun





MIKILVÆGT AÐ BRUGÐIST SÉ STRAX VIÐ OG GRUNUR VAKNAR UM SEINKAÐAN MÁLÞROSKA HJÁ UNGUM BÖRNUM

Snemmtæk íhlutun er afmarkað fræðasvið. Rannsóknir hafa sýnt fram á að hafa megi áhrif á þroskaframvindu barna og undirbúning fyrir nám með ígrunduðum aðferðum (Weitzman og Greenberg, 2002; Tryggvi Sigurðsson, 2006). Snemmtæk íhlutun felur í sér að börn með málþroskafrávik er veitt sérstök örvun (Marta Eydal o.fl. 2019). Heilastarfsemi ungra barna er ekki fullmótuð og þau þá næmari fyrir íhlutun á yngri árum. Þetta þýðir að því fyrr sem málþroskafrávik eru greind og skilgreind er hægt að draga úr, eða jafnvel koma í veg fyrir námserfiðleika síðar á lífsleiðinni. Íhlutun sem byrjar snemma og stendur yfir í langan tíma hefur meiri áhrif heldur en sú sem byrjar seinna og stendur skemur yfir, þó ákefð íhlutunar skipti miklu máli (Fricke o.fl. 2013).

Snemmtæk íhlutun í málörvun felst í því að byrja nógu snemma að greina málþroskafrávik; skilgreina í hverju vandinn er fólginn með því að fá góðar bakgrunnsupplýsingar varðandi barnið og skoða vel hvaða málþætti þarf að vinna með. Jafnframt þarf að veita ráðgjöf og markvissa þjálfun til að ná árangri. Eitt af því sem skiptir miklu máli í allri málörvun er að vinna markvisst eftir viðeigandi málþáttum. Til að það sé hægt þarf að flokka og skilgreina málörvunarefni leikskólans út frá því hvaða málþætti er verið að vinna með hverju sinni. Í framhaldi er hægt að mæta betur mismunandi þörfum barna í málörvun, einnig er mikilvægt að skrá og skilgreina hvað er gert í málörvun, meta árangur og senda viðeigandi málörvunarverkefni heim með þeim börnum sem þess þurfa. Slík vinnubrögð stuðla að aukinni samvinnu á milli starfsfólks leikskóla og foreldra.

Einn þáttur í snemmtækri íhlutun fyrir börn með málþroskafrávik er að kenna þeim viðeigandi notkun máls. Undanfarið hefur áhugi fræðimanna í auknum mæli beinst í þessa átt vegna þess hve afgerandi áhrif hún hefur á hegðun og líðan barna. Birtingarform málþroskafrávika getur komið fram í hegðunarerfiðleikum. Börn með slaka boðskiptafærni eiga erfitt með að vera í hópi. Þau eiga erfitt með að lesa í óyrt skilaboð, hlusta, setja sig í spor annarra og gera til skiptis. Þetta veldur því að þau fá færri tækifæri til að læra af öðrum börnum í hópavinnu. Seinkun í leikþroska og orðaforða getur verið fyrsta vísbending um lestrarerfiðleika. Þau börn sem hafa góðan orðaforða hafa forskot þegar kemur að lestrarferlinu, vegna þess að þau hafa fleiri orðmyndir. Hægt er að kortleggja virkan orðaforða hjá börnum með því að leggja fyrir orðaforðagátlista og þroskalista sem meta mál ungra barna (Elín Þöll Þórðardóttir 1998). Í bókinni um Bínu bálreiðu (Ásthildur Bj. Snorradóttir, 2007) er unnið markvisst með að kenna börnum grunn að góðum boðskiptum. Bína kennir börnunum að sitja, passa hendur, hlusta, bíða, gera til skiptis og muna.

Annar þáttur í málörvun ungra barna er að styrkja hljóðkerfi í gegnum leik og söng. Það er vitað að taktur, söngur og hrynjandi eykur áhuga og hjálpar til við nám (Eyrún Í. Gísladóttir og Þóra Másdóttir, 2009). Í kringum sex mánaða aldur eru flest börn farin að leika og endurtaka hljóðasambönd sem eru búin til af samhljóða og sérhljóða. Í kringum eins árs aldur þróa börn síðan hæfileikann til þess að segja orð sem hafa merkingu við ákveðnar aðstæður (Bryndís Guðmundsdóttir, 2008). Börn með eðlilega heyrn tileinka sér hljóðkerfi í viðkomandi tungumáli fyrst og fremst með því að hlusta og leika sér með málhljóðin. Þetta gerir það að verkum að börn eru virk í þessu ferli sem á sér stað yfir ákveðinn tíma og yfirfæra síðan þessa þekkingu á málhljóðum yfir á aðra þætti, svo sem undirbúning fyrir bókstafsþekkingu og lestrarnám. Umskráning bókstafa í málhljóð byggir meðal annars á þróun hljóðkerfisins (Þóra Másdóttir, 2008) Það er mikilvægt að leika sér með málhljóðin frá unga aldri vegna þess að íslenskar rannsóknir sýna að tveggja ára börn geta myndað 67% einstakra málhljóða á réttan hátt og að rúmlega þriggja ára gömul börn (3;4 ára) geta myndað 88 % íslenskra einstakra málhljóða rétt. Því fer fjarri að það eigi að vinna með beina framburðar leiðréttingu hjá svo ungum börnum, heldur er aðeins verið að benda á mikilvægi þess að beita aðferðum snemmtækrar íhlutunar þegar unnið er með alla málþætti. Það ætti alltaf að vinna í samráði við talmeinafræðinga þegar unnið er með framburð málhljóða.

Byggt á bókinni: Snemmtæk íhlutun í málörvun tveggja til þriggja ára barna (Ásthildur Bj. Snorradóttir o.fl. 2014).

GLEÐI - JÁKVÆÐNI - VINÁTTA