Saga Mánalands

Einkunnarorð leikskólans

GLEÐI

JÁKVÆÐNI

VINÁTTA

Þróun leikskóla í Mýrdalnum hefst árið 1973 þegar konur í Kvenfélagi Hvammshrepps voru áhrifavaldar um stofnun leikskóla hér í Vík. Margir lögðu hönd á plóg við undirbúningsvinnu með þeim, foreldrar girtu af túnblett í útjaðri þorpsins og sáu um frágang leiktækja sem gefin voru af félagasamtökum. Kaupfélag Skaftfellinga gaf gamlan söluskúr sem afdrep fyrir börnin. Á þessum túnbletti er opnaður „róló“ sumarið 1973 fyrir 2-6 ára gömul börn og var opið hálfan daginn. Í skúrnum gátu börnin borðað nestið sitt en engin önnur innistaða var til staðar. Svona var þetta starfrækt í tvö sumur.

Um vorið 1975 flutti starfssemin í Suður-Vík. Þetta var mikil breyting bæði fyrir börn og starfsfólk því inni aðstaðan sem var á neðri hæð hússins var ágæt þó að hún væri nýtt með Hjallatúni til ársins 1988. Næstu árin var leikskólinn opinn eftir hádegi allt árið um kring og fengu öll börn pláss sem þurftu.

Árið 1984 var leikskólinn opinn allan daginn vegna þrýstings frá foreldrum en þá hafði færst í aukana að konur ynnu fyrir hádegi utan heimilis. Árið 1987 börðust foreldrar fyrir því að fá gæslu fyrir börnin sín frá því að fæðingarorlof lyki og þar til börnin kæmust á leikskólaaldur sem þá miðaðist við tveggja ára afmæli. Um haustið var opnuð aðstaða að Mýrarbraut 13 til að sinna þessum börnum og fékk hún nafnið Skriðdeild. Skriðdeildin var ýmist opin hálfan eða allan daginn næstu árin allt eftir því hver þörfin var hverju sinni.

Haustið 1991 kom Heiðdís Gunnarsdóttir leikskólakennari til starfa við leikskólann. Var þá farið að vinna markvisst eftir lögum um leikskóla með uppeldisáætlun fyrir leikskóla að leiðarljósi. Þennan vetur hófst einnig vinna að skipulögðu hreyfiuppeldi með börnunum. Snemma árs 1993 var Skriðdeildin flutt úr upphaflegu húsnæði yfir í Suður-Vík og hefur alla tíð síðan verið tekið við börnum á leikskólann frá því að fæðingaroflofi lýkur og þar til grunnskólaganga þeirra hefst.

Árið 2002 varð Suður-Víkur húsið aldargamalt og var þá um sumarið lokið við endurbætur á húsinu sem hafði hafist nokkrum árum áður. Á lóð leikskólans og útitækjum voru gerðar miklar endurbætur ári síðar eða árið 2003. Í ágúst 2002 hófst vinna við þróunarverkefni sem stóð næstu 2 ár og bar það yfirskiftina: Að gera „góðan róló“ að leikskóla.

Árið 2011 flytur leikskólinn í grunnskólann og sameinast honum og heitir þá Leikskóladeild Víkurskóla en síðar varð hann sjálfstæð eining aftur og fékk nafnið Mánaland árið 2017. Haustið 2018 sótti Mánaland um inngöngu að verkefni Landlæknisembættisins Heilsueflandi leikskóli. Heilsueflandi leikskóla er ætlað að styðja leikskóla í að vinna markvisst að heilsueflingu og gera hana hluta af daglegu starfi leikskólans.

Núna er Mánaland staðsett í sama húsi og Víkurskóli grunnskóli Mýrdalshrepps, Tónskólinn og íþróttamiðstöð/sundlaug hreppsins. Milli 20 –40 nemendur stunda nám við leikskólann á hverjum tíma og er opið milli kl. 07:45 og kl. 16:15. Þrjár heimastofur eru fyrir nemendurna og heita þær:

Dyrhólaey er fyrir yngstu nemendurna sem eru eins til tveggja ára.

Pétursey er fyrir næsta aldurshóp sem eru tveggja til þriggja ára.

Hafursey er fyrir elstu nemendurna sem eru fjögurra til fimm ára.

GLEÐI - JÁKVÆÐNI - VINÁTTA