Málörvun og læsi




Allir sem vinna í leikskóla bera faglega ábyrgð


Kenningar um máltöku segja að börn fæðist með ákveðna hæfni til að læra tungumál en áhrif umhverfisins á máltökuskeiði barna séu ótvíræð (Otto, 2018; Brooks og Kempe, 2012). Hlutverk umönnunaraðila gegnir því stóru hlutverki.

Þegar barn á að þróa tungumálakunnáttu sína er notkun þess á málinu í félagslegu samhengi gríðarlega mikilvæg. Í upphafi er það móðirin sem hermir eftir hljóðum barnsins, með þessu hvetur hún barnið til hermináms og leggur grunninn að því að það nýti herminám til að læra önnur málhljóð síðar meir (Brooks og Kempe, 2012). Barn þarf að læra viðeigandi notkun tungumálsins í ákveðnum aðstæðum, hvað sé rétt að segja á hverjum tíma og við hvern. Það er mikilvægt að börn þrói færni í notkun tungumálsins í félagslegu samhengi, annars eiga þau á hættu að missa af tækifærum til samskipta og verða jafnvel útundan í jafningjahópnum. Þannig þróast málvitund barna frá því að nota tungumálið til að tjá þarfir og langanir, yfir í að átta sig á einstökum hljóðum í orðum og hvernig hægt er að leika sér með orð í mismunandi túlkun þeirra (Otto, 2018). Starfsfólk leikskóla er því í lykilhlutverki hvað varðar daglega málörvun í leikskólastarfi. Þar skiptir mestu að þeir fullorðnu svari tilraunum barna til boðskipta til að barnið gefist ekki upp á því að leita eftir samskiptum. Orðaforðanám barnsins veltur að miklu leyti á næmni umönnunaraðila fyrir áhuga barnsins. Með því að fylgja bendingum ungabarns, augnaráði eða hreyfingum, og orða þá hluti sem barnið sýnir áhuga hvetur umönnunaraðili barnið til frekara náms. Að sama skapi getur umönnunaraðili kveikt áhuga barnsins á ákveðnum hlutum með því að ná athygli barnsins, leyfa því að skoða og handfjatla nýja hluti og nefna þá um leið (Brooks og Kempe, 2012). Það skiptir því höfuðmáli að starfsfólk leikskólans sé meðvitað um að virkja öll börn til þátttöku í leikaðstæðum vegna þess að leikurinn er aðalnámsleið ungra barna til þess að tileinka sér góðan málþroska.

Í Aðalnámskrá leikskóla segir að meginmarkmið læsis sé að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á. (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2011, bls 17). Umhverfið hefur eins og áður segir mikil áhrif á þroska þeirra. Þegar þau fá ýmiss konar örvun, til dæmis með því að hlusta á sögur, söng, tónlist, skoða myndir og ræða málin, er verið að auka líkur á því að sú reynsla komi þeim að notum í ýmsum athöfnum síðar meir (Hallen og Evershaug, 1993, bls.106)

Almenn málörvun í daglegu starfi er eitt af því mikilvægasta sem leikskólinn getur lagt af mörkum til eflingar málþroska leikskólabarna. Mál og lestur eru tveir samtvinnaðir þættir. Mikilvægt er að hafa umhverfi í leikskólum mál- og læsisörvandi og þurfa börnin að hafa aðgang að málörvunarefni við hæfi hvar og hvenær sem er. Málörvunin þarf að vera fléttuð inn í allt starf leikskólans og huga þarf að þáttum eins og orðaforða, máltjáningu, hlustun og ritun. Kennarar þurfa að vera vel undirbúnir til að grípa tækifæri til málörvunar þegar þau gefast (Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, 2011). Kennarar og starfsfólk leikskóla þurfa aukin heldur að hafa þekkingu á þróun málþroska og eðlilegu ferli máltöku. Þeir þurfa einnig að hafa kunnáttu til að bera kennsl á frávik í málþroska svo mögulegt sé að veita viðeigandi stuðning (Otto, 2018).

Börn hafa almennt gaman af því að leika sér og því er kjörið að nýta leikinn markvisst til málörvunar, til dæmis að læra hljóð dýra í dýraleik, heiti líkamshluta við klæðnað og heiti mismunandi hluta við að skoða bækur (Hrafnhildur Sigurðardóttir, 1996). Einnig er kjörið að nýta matartíma til þess að skapa þörf fyrir boðskipti, læra hugtök tengd mat og til þess að hvetja börnin til að eiga samskipti. Á sama hátt er mikilvægt að nýta útiveru til þess að kenna börnum ný hugtök og kenna þeim hugtök tengd nánasta umhverfi.

Það þarf að skapa börnunum uppbyggilegar leikaðstæður þar sem stefnt er að því að allir geti tekið þátt á sínum forsendum. Samvinna heimilis og skóla er einn mikilvægasti þátturinn í allri vinnu með börnum. Foreldrar þurfa að vera virkir þátttakendur í málörvun, til dæmis með því að byrja eins fljótt og mögulegt er að auka málskilning, bæta boðskiptafærni og máltjáningu barnanna (Ásthildur Bj. Snorradóttir, 2004). Fullorðnir, til að mynda foreldrar og starfsfólk skóla, geta stuðlað að auknum málþroska barna með því að setja orð á allar athafnir daglegs lífs. Til að byrja með ætti að nota einfaldar og stuttar setningar sem síðar væri hægt að lengja og flækja út frá aldri og skilningi barnanna (Christophersen og Mortweet, 2004, bls.32-33).

Til að árangur náist í málörvun þurfa leikskólar að hafa skýr markmið og markvissa skráningu yfir það sem gert er í þjálfunarstundum. Ef málörvun gengur vel kemur það fram í aukinni lífsleikni, bættri líðan og betri námsárangri (Ásthildur Bj. Snorradóttir, 2004). Til að örva börn til tals þarf að tala við þau og ekki síður að hlusta á hvað þau hafa að segja. Þeir einstaklingar sem eru í umhverfi barnanna þurfa að vera góðar fyrirmyndir og huga að því hvað barnið segir frekar en hvernig það talar (Valdís B. Guðjónsdóttir, 2007). Mál-, hreyfi- og vitsmunaþroski tvinnast saman og hafa áhrif hver á annan. Leggja þarf grunn að málþroska snemma í lífi barns. Allt frá fæðingu þarf að hafa góð samskipti við barnið í gegnum talað mál, þar sem raddblær, hrynjandi og endurtekning skipta miklu máli. Þroski barna eykst og þau verða betur undirbúin í að tileinka sér lestur og skrift ef þau hafa átt í góðum mállegum samskiptum og fengið góða málörvun frá fæðingu og við upphaf skólagöngu.

Byggt á óútgefinni meistararitgerð: „Með hugann við efnið“ Starfendarannsókn um málörvun ungra barna, Kristín Ósk Ómarsdóttir, 2020)

GLEÐI - JÁKVÆÐNI - VINÁTTA