Reglubundnar skimanir

TRAS - skráningarlisti

TRAS-skráningalistinn (n. Tidligregistreringaf språkudvikling) er fylltur út á sex mánaða fresti fyrir öll börn á aldrinum tveggja til fimm ára. Með honum er hægt að skima eftir frávikum í félags- og málþroska barna með fyrirbyggjandi íhlutun í huga. TRAS kemur upprunalega frá norskum sérkennslustofnunum og háskólafólki og er víða notaður á Norðurlöndunum (Menntamálastofnun, e.d.).

TRAS kannar eftirtalda þætti:

  • Samleik/félagsfærni

  • Tjáskipti/samskipti

  • Athygli/einbeitingu

  • Málskilning

  • Málvitund

  • Framburð

  • Orðaforða

  • Setningarmyndun

Á Mánalandi er TRAS lagt fyrir börn frá 2,3 ára til 4,9 ára. TRAS hringurinn er svo notaður til þess að sýna foreldrum stöðu þeirra barns á þessum þáttum í árlegum foreldrasamtölum.

Frekari upplýsingar um TRAS má finna á tengli hér neðar.

Orðaskil

Orðaskil er málþroskapróf sem er samið sérstaklega fyrir íslensk börn og byggir á orðaforðagátlista fyrir þau á aldrinum eins og hálfs til þriggja ára. Höfundur prófsins er Elín Þöll Þórðardóttir, talmeinafræðingur. Prófinu er ætlað að mæla orðaforða barnanna og hvort þau hafa náð valdi á beygingarkerfi og setningagerð málsins. Aldursviðmið fylgja prófinu, en með samanburði við þau er skorið úr um hvort málþroski barna mælist innan eðlilegra marka miðað við jafnaldra.

Orðaskil er samið sérstaklega fyrir íslensk börn og er alllangur gátlisti orða og setninga sem foreldrar fylla út og meta orðaforða og setningamyndun barna sinna.

Á Mánalandi eru allir foreldrar beðnir um að merkja við þau orð og setningar sem þeir hafa heyrt börn sín nota fyrir 3 ára aldur (Elín Þöll Þórðardóttir, 1998).

Hljóm-2

HLJÓM-2 er aldursbundið próf í leikjaformi til að athuga hljóð- og málvitund elsta árgangs leikskólabarna. Þegar það er lagt fyrir þurfa börnin að vera orðin 4 ára, 9 mánaða og 16 daga og ekki eldri en 6 ára, 1 mánaða og 15 daga. Niðurstöður eru reiknaðar út frá nákvæmum aldri barnsins og gefa til kynna; góða færni, meðalfærni, slaka færni eða mjög slaka færni. Aðaltilgangur HLJÓM-2 er að finna sem fyrst þau börn sem eru með frávik í hljóðkerfisvitund svo hægt sé að grípa inn í með snemmtækriíhlutun og draga þannig úr áhættu á lestrarerfiðleikum síðar meir. Með þjálfun hljóðkerfisvitundar er byggður góður grunnur fyrir lestrarnám og almennt námsgengi og því er mikilvægt að fylgjast vel með framvindu hvers og eins (Ingibjörg Símonardóttir o.fl., 2002).

Þættirnir sem metnir eru í HLJÓM-2 eru:

  • Rím

  • Samstöfur

  • Hljóðgreining

  • Margræð orð

  • Orðhlutaeyðing

  • Hljóðtenging

Á Mánalandi er Hljóm-2 lagt fyrir börn í elsta árgangi að hausti september/október og foreldrar upplýstir um niðurstöður og viðbrögð við frávikum kynnt. Þau börn sem lenda fá slaka eða mjög slaka niðurstöðu eru skoðuð aftur eftir áramótin í janúar/febrúar.

Frekari upplýsingar um Hljóm-2 má finna á tengli hér neðar.

GLEÐI - JÁKVÆÐNI - VINÁTTA