Vatnsendaskóli tók til starfa haustið 2005 og var Guðrún Soffía Jónasdóttir skólastjóri. Fyrsta veturinn var ein kennsluálma tilbúin til notkunar og voru 122 nemendur í skólanum í 1. til 6. bekk. Önnur kennsluálma og verkgreinahús bættist við haustið 2006 og unglingaálman var tekin í notkun á þriggja ára afmæli skólans haustið 2008. Á sama tíma var skrifstofuhúsnæði, bókasafn og mötuneyti opnað. Síðasta byggingaáfanganum lauk með vígslu samkomusalar 26. janúar 2012. Haustið 2013 var svo tveimur lausum kennslustofum, Holti og Mýri, bætt á skólalóðina. Vorið 2016 hófust framkvæmdir við íþróttahús en í þeirri byggingu eru einnig fjórar kennslustofur sem voru teknar í notkun haustið 2017. Íþróttahúsið var vígt 11. maí 2018. Vatnsendaskóli stendur við Elliðavatn í fallegu umhverfi. Góðar forsendur eru fyrir hendi að tengja skólastarfið við umhverfið með virkum hætti. Göngustígur liggur frá skólanum niður að vatninu og tengist stígakerfi sem opnar leið að fjölbreyttum náttúru- og útivistarsvæðum. Tvær sérhannaðar náttúrufræði- og raungreinastofur eru í skólanum.
Skólaárið 2022-2023 eru 573 nemendur í Vatnsendaskóla og tæplega 90 starfsmenn, ýmist í hluta- eða fullu starfi. Fjölbreyttir kennsluhættir og einstaklingsmiðað nám eru leiðarljós skólans. Skólastjóri Vatnsendaskóla er María Jónsdóttir og tók hún við starfinu vorið 2020.
Einkunnarorð skólans er: Vinátta, virðing, samvinna og skapandi starf
Hagnýtar upplýsingar:
Vatnsendaskóli, Funahvarfi 2, 203 Kópavogur
Símanúmer skólans: 441 4000
Símanúmer Stjörnuheima (frístund): 621 4170
Skólastjóri: María Jónsdóttir
Aðstoðarskólastjóri: Sigrún Brynjólfsdóttir
Deildarstjóri eldra stigs (7.-10.bekkur): Jóhanna Rakel Sveinbjörnsdóttir
Deildarstjóri yngra stigs (1.-6.bekkur): Lovísa Hannesdóttir
Forstöðumaður Stjörnuheima: Ari Magnús Þorgeirsson
Forstöðumaður Félagsmiðstöðvarinnar Dimmu: Sunna Rut Garðarsdóttir
Húsvörður: Hafsteinn Haraldsson
Heimasíða Vatnsendaskóla hefur vefslóðina www.vatnsendaskoli.is. Þar má finna ýmsar upplýsingar um skólastarfið, tilkynningar frá skólanum, skóladagatal, fréttir, ýmsar áætlanir, eyðublöð, myndir úr skólastarfi birtast á Mentor.