Námsmatsstefna Vatnsendaskóla byggir á hæfniviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla. Í henni birtist heildarstefna stjórnvalda í menntamálum sem byggir á lögum um grunnskóla. Samkvæmt Aðalnámskrá er skólum skylt að marka sér stefnu í námsmati sem birtist í skólanámskrá. Í skólanámskrá Vatnsendaskóla eru einkunnarorð skólans,vinátta, virðing, samvinna og skapandi skólastarf lögð til grundvallar. Í henni endurspeglast sú framtíðarsýn að til þess að ná árangri í skólastarfi þurfi að hlúa að vellíðan og starfsánægju bæði nemenda og starfsmanna skólans. Í bekkjarnámskrám má fræðast um hæfniviðmið, námsmarkmið, námsgreinar, kennsluaðferðir,námsmat og helstu námsgögn hverrar námsgreinar.
Námsmat
Hæfniviðmið er sá grundvöllur sem kennsluhættir og námsmat byggist á. Mikilvægt er að námsmat nái til allra færniþátta og endurspegli hæfniviðmiðin og viðfangsefni námsins. Út frá hæfniviðmiðum velja kennarar og nemendur kennsluaðferðir, námsefni og matsaðferðir og skal gera grein fyrir þeim í skólanámskrá.
Lykilhæfni er sú hæfni sem snýr að nemandanum sjálfum og er ætlað að stuðla að alhliða þroska hans. Hún tengist öllum námssviðum og snýr að hæfni í tjáningu og miðlun, skapandi og gagnrýninni hugsun, sjálfstæði og samvinnu, nýtingu miðla og upplýsinga og ábyrgð og mat á eigin námi. Mat á lykilhæfni birtist í hæfnikorti nemandans og koma allir kennarar hans að því mati. Mikilvægt er að lykilhæfni sé hluti af menntun í grunnskóla, bæði formlega og óformlega sem og í starfsháttum skólans.
Kennsla, nám og námsmat mynda eina heild. Námsmatið er hluti af náms- og kennsluferlinu og er skipulagt í samræmi við námskrá, hæfniviðmið og viðfangsefni nemenda. Námsmat er notað til þess að ákveða næstu skref í námi nemenda.
Mikilvægt er að námsmatið sé fjölbreytt og gefi heildstæða mynd af hæfni nemandans. Það þarf að vera sanngjarnt og gefa nemandanum tækifæri til að sýna þekkingu, leikni og hæfni. Leggja skal áherslu á leiðsagnarmat sem byggist á því að nemendur leggi reglulega mat á nám sitt með kennurum til að nálgast eigin markmið og ákveða hvert skal stefna. Með slíku mati fá bæði kennarar og nemendur upplýsingar um framvindu náms og hvort kennslan hafi skilað árangri. Mikilvægt er að nemendur fái vitneskju um forsendur námsmats, til hvers er ætlast af þeim, hvernig verði metið og veita þeim endurgjöf um það sem þarf að bæta.
Með námsmati er fylgst með því hvernig nemendum tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, stuðlað að námshvatningu, nemendur örvaðir til framfara og metið hvaða aðstoð þeir þurfa. Námsmat miðar einnig að því að afla vitneskju um árangur skólastarfsins og hvernig einstaklingum og hópum gengur að ná settum markmiðum. Námsmat á að vera upplýsandi fyrir foreldra og nemendur, kennara, viðtökuskóla og skólayfirvöld um námsgengi sem má hafa að leiðarljósi við skipulagningu náms.