Allir einstaklingar óháð kyni eigi að hafa jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína
Markmið jafnréttisáætlunar grunnskólans er að gæta þess að jafnrétti ríki milli karla og kvenna sem og stráka og stelpna. Til grundvallar þarfagreiningar, mælanlegra aðgerðabundinna markmiða og þeirra leiða sem valið er að fara liggja lög nr. 10 frá 2008 Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Launajafnrétti
Markmið: Stjórnendur, bæjaryfirvöld og starfsmenn munu í sameiningu vinna að jöfnum rétti kynjanna varðandi launakjör. Unnið skal að því að ekki sé um óútskýrðan launamuna að ræða milli kynjanna í skólanum.
Aðgerð/verkefni: Stjórnendur geri ekki upp á milli kynjanna þegar til greina kemur að ákvarða laun, hlunnindi og öll almenn kjör.
Ábyrgð: Skólastjóri
Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun
Markmið: Þegar stöður innan skólans eru auglýstar skulu bæði kynin hvött til að sækja um laus störf. Komi tveir jafnhæfir umsækjendur til greina skal stefna að því að ráða einstakling af því kyni sem hallar á innan skólans, deildarinnar, kennslugreinarinnar eða stigsins sem um ræðir. Við sérstakar aðstæður, t.d. vegna kyns nemanda sem þarf stuðning eða sérstaka aðstoð, getur verið nauðsynlegt að auglýsa og ráða einstakling af ákveðnu kyni til starfa. Öllum starfsmönnum skólans skal standa til boða að sækja sér endurmenntun. Bæði kyn skulu hafa jafnan aðgang að fjölbreyttri endurmenntun.
Aðgerð/verkefni: Stjórnendur og bæjaryfirvöld munu sameinast um að gæta fyllsta jafnréttis við ráðningu í laus störf innan skólans. Skólastjóri hvetur starfsfólk sitt til að sækja sér endurmenntun.
Ábyrgð: Skólastjórnendur í samvinnu við skólamálayfirvöld.
Tímarammi: Við innra mat, ár hvert skal þess gætt að jafnréttis hafi verið gætt við ráðningar í laus störf.
Í starfsmannasamtölum að vori skal starfsmaður inntur eftir því hvaða endurmenntun hann óski eftir og símenntun rædd.
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
Markmið: Skólastjórnendur stefna að því að koma til móts við þarfir stafsmanna varðandi fjölskyldulíf og gæta þess sérstaklega að sama gildi um karla jafnt sem konur. Tekið skal tillit til fjölskylduaðstæðna um leið og starfsmenn skuldbinda sig til að taka einnig tillit til þarfa atvinnulífsins að því marki að aldrei halli á starfsmanninn og fjölskyldu hans. Starfsmönnum skal gert auðvelt að koma til starfa að loknu fæðingar- og foreldraorlofi eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna. Stjórnandi vinnur náið með starfsmönnum að skipuleggja það leyfi sem þarf við þessar aðstæður.
Aðgerð/verkefni: Við innra mat, ár hvert skal þess gætt að tekið hafi verið tillit til þarfa starfsmanns með tilliti til samræmingar fjölskyldu og atvinnulífs. Í starfsmannakönnun að vori skal sérstaklega spyrja að þessu og komi óánægja starfsmanna í ljós skal skólastjóri í samvinnu við stjórnunarteymi kanna málið frekar og tafarlaust grípa til aðgerða til að sporna við árekstrum milli samræmingar fjölskyldulífs og atvinnuþátttöku starfsmanns við skólann.
Ábyrgð:Skólastjóri í samvinnu við starfsmenn.
Tímarammi: Við innra mat, ár hvert skal þess gætt að sérstakt tillit sé tekið til fjölskyldulífs starfsmanna í skólanum.
Kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni
Markmið: Hvorki kynbundin áreitni né kynferðisleg áreitni skal liðin í skólanum. Miða skal við orðskýringar úr jafnréttislögum
Aðgerð/verkefni: Fræðsla skal fara fram a.m.k. annað hvert ár varðandi kynbundna og kynferðislega áreitni þá jafnana samhliða vinnu að áhættumati og séu til þess nýttir vinnuumhverfisvísar Vinnueftirlitsins.
Ábyrgð: Skólastjóri, trúnaðarmenn, öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörður.
Tímarammi: Ár hvert skal inna starfsmenn eftir upplifun sinni varðandi kynferðislega eða kynbundna áreitni í starfsmannakönnun sem er þáttur af innra mati skólans auk sérstakrar fræðslu sem fara skal fram eigi sjaldnar en annað hvert ár.
Menntun og skólastarf
Markmið: Hvorki starfsmönnum né nemendum skal mismunað eftir kyni í skólanum. Þess skal gætt við alla áætlanagerð og stefnumótun. Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu-, og atvinnulífi. Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað. Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skulu piltar og stúlkur óháð kyni hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf.
Aðgerð/verkefni: Skólastjóri skal fela deildarstjórum að yfirfara kennsluáætlanir og skólanámskrá með það fyrir augum að kanna hvort jafnt tillit sé tekið til kynjanna innan skólans. Skólastjóri skal leitast við að öll stefnumótun sem þannig er úr garði gerð að hún miðist við kynjasamþættingu. Kannanir starfsmanna, nemenda og foreldra sem eru þáttur í innra mati skólans skulu inna viðkomandi aðila eftir því hvort jafnrétti kynjanna sé að jafnaði gætt innan skólans.
Ábyrgð: Skólastjóri
Tímarammi: Ár hvert við innra mat skal þess gætt að jafnrétti ríki innan skólans hvort heldur sem um starfsmenn og/eða nemendur er að ræða.
Bann við mismunun á grundvelli kyns
Markmið: Innan skólans eru kynin jafn rétthá. Skulu drengir jafnt sem stúlkur eiga rétt á allri þeirri þjónustu sem völ er á innan skólans óháð kyni sínu. Starfsfólki ber að virða alla nemendur óháð kyni og taka mið af því varðandi alla umgengni, nám, kennslu og skipulag starfshátta.
Aðgerð/verkefni: Við skipulag, alla áætlanagerð og daglegt samneyti skal þess gætt að einstaklingum sé gert jafn hátt undir höfði óháð kyni.
Ábyrgð: Skólastjórnendur og skólamálayfirvöld.
Tímarammi: Við innra- og ytra mat, ár hvert skal þess sérstaklega gætt að jafnrétti ríki við alla ákvarðanatöku og skipulag sem og samskipti innan skólans.