ÞITT ER VALIÐ

Valgreinar í unglingadeild 2024 – 2025

 Kæri nemandi,

Viðmiðunarstundaskrá menntamálaráðuneytisins gerir ráð fyrir að nemendur í 
8. – 10. bekk séu alls 37 kennslustundir á viku í skólanum og að hluti þeirra eigi að vera valgreinar.

Hér má sjá lýsingar á þeim fjölmörgu valgreinum sem Hraunvallaskóli býður upp á skólaárið 2024– 2025. 

Einnig er hægt að skoða hvert og eitt af listanum hér á síðunni efst til vinstri undir VAL

Valgreinatímabilin eru þrjú: 

Í unglingadeild Hraunvallaskóla geta allir nemendur í 8. – 10. bekk valið sér allt að sex valgreinar yfir skólaárið, tvær á hverju valtímabili eina á mánudögum og eina á fimmtudögum.

Athugið að einhverjar valgreinar eru einungis heilsársval, þ.e. að ef nemandi velur þá grein mun hann sinna námi sem þar fer fram frá hausti fram á vor og ekki verður hægt að gera neinar breytingar á því fyrirkomulagi. 

Valgreinar, aðrar en heilsárs, eru ýmist í boði á einu, tveimur eða öllum þremur tímabilunum. Hver valgrein er kennd að jafnaði í 2x40 mín sem gerir 160 mínútur á viku.

Einstaka áfangi er kenndur lengur í senn og þá í færri skipti.  Sjá nánar í lýsingu valgreina.

Nauðsynlegt er að lesa vel lýsingarnar á valáföngunum og velja út frá áhugasviði. Við hvetjum þig, kæri nemandi, til að ráðfæra þig við foreldra/forráðamenn og leita leiðsagnar hjá kennara eða námsráðgjafa skólans.

Námsmat er í öllum valgreinum. Gefið er lokið/ólokið fyrir valið en bókstafir fyrir hæfniviðmið. 

Valinu hefur nú verið lokað 

Ráðfærið ykkur við námsráðgjafa ef þið eigið eftir að velja eða þurfið að gera breytingar.

Valinu á að skila með rafrænum hætti eigi síðar en föstudaginn 24. maí.

Ef nemandi hefur ekki skilað inn vali á tilsettum tíma áskilur skólinn sér rétt til að setja nemendur í val þar sem er laust pláss.

Valgrein getur fallið niður m.a. ef ekki verður næg þátttaka. Einnig eru fjöldatakmarkanir í flestum valgreinum. Mikilvægt er að nemendur haki við valmöguleika á öllum tímabilum.

Árshátíðarundirbúningur er eingöngu í boði á þriðja tímabili, sjá nánar í lýsingu.

Tómstundaiðkun eða vinna metin alfarið sem valgrein.  Rafræn beiðni verður send í tölvupósti til foreldra/forsjáraðila gegnum netfög sem eru skráð á Mentor.

Tómstundaiðkun eða vinna metin að hluta sem valgrein. Rafræn beiðni verður send í tölvupósti til foreldra/forsjáraðila gegnum netfög sem eru skráð á Mentor.

Tækniskólaval (aðeins fyrir nemendur sem fara  í 10. bekk) - heilsársval.    Hér verður aðgengilegur hlekkur á rafrænt form þar sem nemendur velja greinar.  Einnig verður að fylla út í  valið skriflega þar sem undirritun foreldra er krafist af Tækniskólanum. Eyðublað er hægt að nálgast hjá námsráðgjafa eða ritara.

Söngleikur - heilsársval       

Skipulagt nám, íþrótta-, tómstundaiðkun og þátttaka í atvinnulífi getur verið metið sem valgrein.

Nemendur sækja valgreinar í 160 mínútur á viku (2x2x40 mínútur).

Ef forráðmenn óska eftir því fyrir sitt barn að fá íþrótta-, tómstundaiðkun eða vinnu metna sem valgrein, alfarið eða að hluta, þá þarf  foreldri/forsjáraðili að fylla út rafræna undanþágu beiðni þess efnis.  Rafræn beiðni verður send í tölvupósti til foreldra/forsjáraðila gegnum netfög sem eru skráð á Mentor. Beiðninni þarf að skila inn í síðast lagi 24. maí.  

Ef nemandi er í einhverju af ofangreindu í 160 mínútur á viku þarf hann ekki að vera í  vali frekar en hann vill.

Í lögum um grunnskóla frá 2008 segir:

 „Heimilt er að meta skipulagt nám sem stundað er utan grunnskóla, t.d. við tónlistarskóla, sem hluta af grunnskólanámi samkvæmt nánari útfærslu í aðalnámskrá grunnskóla. Stundi nemandi slíkt nám er viðkomandi sveitarstjórn ekki skylt að standa straum af kostnaði sem af því leiðir þótt námið njóti viðurkenningar í stað skyldunáms. Jafnframt er heimilt að meta tímabundna þátttöku í atvinnulífi, félagslífi, íþróttum eða skipulögðu sjálfboðastarfi sem nám, enda falli það að markmiðum skólastarfs.“

Í aðalnámskrá grunnskóla 2011 (almennur hluti) kemur fram:

„Að ósk foreldra er heimilt að meta sem nám tímabundna þátttöku nemenda í atvinnulífi og reglubundna þátttöku í félagslífi, íþróttum eða skipulögðu sjálfboðastarfi enda falli það að markmiðum skólastarfs. Einnig er heimilt að meta skipulagt nám, sem stundað er utan grunnskóla, til valgreina, t.d. nám við framhaldsskóla, listaskóla og málaskóla. Í hverju tilviki metur viðkomandi skóli umfang slíks náms og gæta þarf jafnræðis í afgreiðslu mála. Við það skal miðað að það nemi ekki meira en sem svarar 160 mín. vikulega á hverju skólaári á unglingastigi og er þá heimilt að meta slíkt til valgreina hjá viðkomandi nemendum.“

 

Valgrein utan skóla getur ekki komið í staðin fyrir kjarnagreinar í skóla. Til dæmis er ekki hægt að sleppa skólaíþróttum (íþróttir og sund) þrátt fyrir miklar íþróttaæfingar. 

 Valinu á að skila með rafrænum hætti eigi síðar en föstudaginn 24. maí. 

ATH: Ef nemandi hefur ekki skilað inn vali á tilsettum tíma, eða forsjaraðili  sent beiðni um undanþágu frá vali, áskilur skólinn sér rétt til að setja nemendur í val þar sem er laust pláss.

Valgrein getur fallið niður m.a. ef ekki næst næg þátttaka. Námsráðgjafi aðstoðar nemendur í þeim valáföngum, við að skrá sig annað val í staðinn.  Einnig eru fjöldatakmarkanir í flestum valgreinum. Fyrstir skráðir, fyrstir fá.

Ekki er í boði að breyta vali eftir að fyrsta valtímabil hefst. 

 

Með góðri kveðju og ósk um gott samstarf

Guðný Eyþórsdóttir  - Námsráðgjafi

Hjördís Bára Gestsdóttir - Deildastjóri