Leikskólastjóri ásamt sérkennslustjóra bera ábyrgð á því fjármagni sem leikskólinn hefur til þess að sinna stoðþjónustu skólans. Úthlutað er fjármagni til leikskóla eftir stærð þeirra með fjárúthlutunarkerfinu Snorra. Fjármagnið á að duga til þess að koma á móts við börn með snemmtækri íhlutun.
Sótt er um fjármagn fyrir börn með þar til gerðri beiðni. Endurmeta þarf ca. árlega umsókn um fjármagn með endurmatsbeiðni.
Reglur um úthlutun fjármagns vegna stuðnings í leikskólum
2. Úthlutun fjármagns vegna stuðnings í leikskólum
2.1 Úthlutað er fjármagni til leikskóla eftir fjölda barna í hverjum leikskóla (0,1 stg. + (0,2 stg. x 5% barna)) með fjárúthlutunarkerfinu Snorra. Fjármagnið á að duga til þess að koma á móts við börn með snemmtækum stuðningi.
2.2 Heimilt er að sækja um viðbótarfjármagn til þess að koma á móts við þarfir barna sem m.a. hafa fengið frumgreiningu:
a) sálfræðinga miðstöðva Reykjavíkur
b) greiningu frá Ráðgjafar og greiningarstöð ríkisins (RGR)
c) barnalækni vegna veikinda
d) Geðheilsumiðstöð barna
e) Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ)
f) Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, daufblinda og sjónskerta einstaklinga.
Miðað er við að um sé að ræða börn sem þurfa á verulegri aðstoð og stuðning að halda í daglegu lífi vegna t.a.m. fjölfötlunar, alvarlegrar og miðlungs þroskahömlunar (<50), verulegrar hreyfihömlunar (hjólastóll/hækjur), verulegrar tengslaskerðingar eða blindu og heyrnarleysis, og alvarlega langveik börn.
2.3 Úthlutun á viðbótarfjármagni verður í samræmi við fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs til málaflokksins og þann fjölda barna sem þurfa stuðning hverju sinni.
2.4 Úthlutað er viðbótarfjármagni til leikskóla vegna tímafjölda til samræmis við daglegan vistunartíma barnsins í leikskólanum og þjónustuþörf þess. Þjónustuþörf barnsins er metin af sérkennslustjóra í leikskóla barnsins í samvinnu við sérfræðiþjónustu miðstöðva.
2.5 Sé fötlun barns með þeim hætti að þörf sé á stuðningi í fleiri tíma en sem nemur vistun barnsins er unnt að senda beiðni til skrifstofu skóla- og frístundasviðs með rökstuðningi, byggðum á mati, í samvinnu við sérfræðiþjónustu miðstöðvarinnar.
Það er mikilvægt að þú hafir gott yfirlit yfir úthlutað fjármagn og hvenær komið er að endurskoðun á því. Til þess mætti nota exelskjal sem hægt er að sækja í Völu undir Listar eða útbúa heimagert exelskjal.
Mikilvægt er að sérkennslustjórar láti verkefnastjóra sérkennslu vita ef barn mætir illa, hættir, færist á milli sveitarfélaga eða leikskóla innan borgarmarka.
Þegar niðurstöður athuganna liggja fyrir og niðurstöður benda til verulegra frávika í þroska sækir þú í samráði við leikskólastjóra um úthlutun fjármagns vegna stuðnings á þar til gerðu beiðnablaði til verkefnastjóra sérkennslu á Skóla- og frístundasviði. Þá hefur verið unnið eftir einstaklingsnámskrá barnsins í nokkra mánuði og fjallað um stöðu barnsins á lausnateymisfundi. Að nokkrum tíma liðnum þarf svo að endurmeta þörfina fyrir fjármagn og þá er fyllt út þetta endurmats beiðnablað. Eyðublaðið er svo sent til verkefnastjóra sérkennslu eftir þessum leiðbeiningum.
Skólaárið 2025-2026 verður unnið að nýju rafrænu umhverfi Búa sem vonandi mun auðvelda og tryggja betur gagnaflutning milli leikskóla og þeirra sem málið varða.
Haldnir eru endurmats- og úthlutunarfundir verkefnastjóra sérkennslu í samráði við hverja og eina Hverfamiðstöð í janúar, mars, maí, september og nóvember. Beiðnir þurfa að hafa borist fyrir 1. dags þessara mánaða.
Í úthlutunarteymi sitja verkefnastjóri sérkennslu (SFS), fagstjóri, sérkennsluráðgjafar og aðrir sérfræðingar í viðkomandi Hverfamiðstöð. Teymið fjallar um beiðnirnar sem berast og úthlutar í samræmi við úthlutunarreglur og fjárhagsramma. Horft er til greiningarniðurstaðna við úthlutun stuðnings fjármagns en einnig hafa aðstæður barna áhrif á niðurstöður úthlutunar svo sem:
Dagleg umönnunarþörf
Félagslegar aðstæður
Hjálpartækjaþörf
Boðskiptaþörf