Í leikskólum Reykjavíkur eru um 20% barna af erlendum uppruna og í nokkrum skólum er hlutfallið mun hærra. Því er mikilvægt að leikskólastarf endurspegli fjölbreytileika mannlífsins. Framlag barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra auðgar daglegt starf leikskólanna með ýmsu móti og skapar tækifæri til að kynnast annarri menningu og tungumálum. Í leikskólanum er lagður grunnur að íslenskukunnáttu barna með annað móðurmál en um leið er mikilvægt að styðja foreldra þeirra og hvetja til að nota og viðhalda móðurmáli sínu og virða sinn menningarlega uppruna. Hæfnirömmum í íslensku fyrir fjöltyngd börn er ætlað að vera uppspretta breytilegs leikskólastarfs sem styður við framfarir barna í íslensku. Upplagt er að nota þá til þess að fylgjast með framförum fjöltyngdra barna í leikskólanum.
Í öllum leikskólum á að vera verkefnastjóri/tengiliður fjölmenningar og er almennt ekki talið heppilegt að það sé sérkennslustjóri, enda hefur hann næg verkefni fyrir. Best er að leita ráða og skrá sig hjá Sögu Stephensen.
Miðja máls og læsis er þekkingarteymi á vegum Reykjavíkurborgar sem fer á vettvang og veitir kennurum og starfsfólki í skóla- og frístundastarfi stuðning, ráðgjöf og fræðslu varðandi málþroska, læsi, íslensku sem annað mál, fjöltyngi og fjölmenningu. Allt starfsfólk leikskóla er hvatt til þess að hafa samband við ráðgjafa á þeirra vegum og óska eftir fræðslu, hvort sem er einstaklingslega, fyrir deild eða allan leikskólann í heild.
Vefsíða MEMM er ætluð kennurum og starfsfólki í skóla- og frístundastarfi.
Tilgangurinn er að miðla gagnlegum verkfærum, fræðslu og hugmyndum sem styðja við menntun barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.