Hugmyndafræði leikskóla fyrir alla
Það er bráðnauðsynlegt að þú kynnir þér hugmyndafræði leikskóla fyrir alla sem fyrst til þess að vera viss um að þú og samstarfsfólk þitt bjóði upp á gæðamenntun þannig að öll börn njóti á þeirra forsendum, en ekki einungis að börn með fötlun fái að ganga í sama skóla og ófötluð börn.
Skipulag skóla er oft miðað út frá ófötluðum börnum og því hefur áherslan verið að aðlaga börn með fötlun að skólaumhverfinu á þann hátt að þeir geti uppfyllt þau markmið sem sett eru. Nauðsynlegt er að setja sig inn í hugsunarhátt og skipulag skóla fyrir alla svo það gangi sem best að koma til móts við þarfir allra barna. Horfa þarf á barnahópinn í heild og líka þarfir hvers og eins.
Inngilding
Í fjölmenningarlegu samfélagi er litið á fjölbreytileika sem sjálfsagðan hlut og lögð er áhersla á inngildingu (e. inclusion). Inngilding felur í sér að viðurkenna og virða fjölbreytileikann og gera alltaf ráð fyrir honum. Inngilding snýr að því að virkja allt fólk til þátttöku og gefa fjölbreyttum hópi fólks kleift að taka þátt í ákvarðanatöku. Í þessu sambandi ættir þú að lesa Lög um inngildandi menntun, en þar kemur skýrt fram að líta ber á fjölbreytileika mannlífsins sem eðlilegan hlut, og innan skólakerfisins þarf stöðugt að ígrunda og endurskoða hvernig tekið er á móti börnum og ungmennum, hvernig menntun þeirra er uppbyggð, hvort matstækin sem notuð eru til að meta árangur og framfarir séu hlutdræg og hvernig hugað er að velferð þeirra í samstarfi við þau sjálf og fjölskyldur þeirra. Þannig bjóða raunverulega inngildandi “námsrými” upp á fjölmörg tækifæri fyrir öll til að verða fullgildir (e. belonging) og virkir þátttakendur þar sem börn og fullorðnir læra saman og hvert af öðru þvert á styrkleika, menningu og tungumál. Slík námsrými styðja við það markmið að nám feli í sér að einstaklingar þroskist og menntist sem meðvitaðir og áhugasamir borgarar sem verða virkir þátttakendur í því lýðræðissamfélagi sem við erum að byggja upp.
Kennsluaðferðir fyrir fjölbreyttan hóp
Deildarstjórar og sérkennslustjórar þurfa ef til vill að endurskoða aðferðir sínar og skoða hvernig þeir geta skipulagt námstækifæri innan barnahópsins. Kennsluaðferðir sem miðast út frá einsleitum hópi barna, þar sem gert er ráð fyrir að börn með sérþarfir séu í þjálfun utan hópsins, ýta undir aðskilnað og útilokun. Mikilvægt er fyrir öll börn í leikskóla að finna að þau tilheyri barnahópnum, að þeirra framlag sé virt og viðurkennt. Öll hafa þau eitthvað fram að færa en börn hafa mis mikla félagsfærni og þarfnast sum þeirra stuðning fullorðinna til að aðlagast öðrum börnum. Sjálfsmynd barna mótast m.a. af því hvernig þeim tókst að aðlagast félagslega strax í leikskóla og því er afar mikilvægt að styðja börn í samskiptum og leik.
Nú kann að vera að þú sért farin(n) að hugsa: en hvað með einhverfu börnin, hvað með börnin með þroskahömlun sem við fáum úthlutað fjármagni til þess að mæta þörfum þeirra í leikskólanum? Það eitt og sér á ekki að koma í veg fyrir að barn fái tækifæri á að aðlagast barnahópnum. Í sérkennslustefnu Reykjavíkurborgar kemur fram að fagleg rök skulu ætíð styðja val á námsaðferðum, hvort sem þörfum barnsins er mætt í hóp eða unnið með það eitt og sér. Öll færni sem barnið er að læra eftir gagnreyndum aðferðum í kennslu og þjálfun t.d. barn með einhverfu, verða að miða að því að barnið geti stig af stigi aukið þátttöku sína í almennu leikskólastarfi.
Það er því nauðsynlegt að unnið sé eftir einstaklingsnámskrá barnsins sem er bæði heildstæð og einstaklingsmiðuð.
Í heildstæða hluta námskrárinnar er tekið fram á hvern hátt leikskólaumhverfið ætlar að taka mið af félagslegum samskiptum barnsins, hver er þátttaka annarra barna og starfsfólks deildarinnar.
Verkaskipting
Eins og viðhorf starfsfólks í leikskólum getur haft jákvæð áhrif á leikskóla fyrir alla þá geta þau líka verið hindrandi ef þau eru neikvæð í garð stefnunnar og/eða barna með sérþarfir. Þannig geta hindrandi viðhorf leitt til þess að sérkennsla verði einkamál þess sem á að framkvæma hana, stuðningsaðilans.
Gætum þess sérstaklega að ekki myndist togstreita í starfsmannahópnum er varðar verkaskiptingu, „Hver á þetta barn, hver er með stuðning með þessu barni?“ „Á ég að sjá um þetta barn, er það ekki með stuðning?“ Allir eiga að sjálfsögðu að sinna öllum börnunum á deildinni, skipulag sérkennslunnar má ekki valda þannig togstreitu því það getur hindrað barnið í fullri þátttöku í starfi leikskólans og það er alls ekki í anda hugmyndafræði leikskóla fyrir alla. Ábyrgð deildarstjóra í þessu sambandi er mjög mikil, viðhorf hans og þátttaka í skipulagningu sérkennslunnar ásamt sérkennslustjóra skiptir gríðarlega miklu máli.