Með aðstoð deildastjóra og leikskólastjóra getur sérkennslustjóri stofnað fagteymi sérkennslu/deild innan leikskólans. Fagteymið gæti verið skipað 2-5 starfsmönnum, t.d. sérkennara, þroskaþjálfa, leiðbeinanda, sem ráðnir eru til þess að sinna stuðningi við börn með sérþarfir. Fjöldi starfsmanna fer eftir því fjármagni sem veitt hefur verið hverju sinni.
Í samstarfi við lausnateymi leikskólans ákvarðar sérkennslustjóri hvernig, hvar og hvenær starfsmenn fagteymisins nýtast best inni á deildum vegna barna með sérþarfir. Þú hefur forráð yfir starfsmönnum fagteymisins/deildarinnar og útbýrð í samstarfi við deildarstjóra stundaskrá fyrir hvern og einn.
Í samtölum sem þú átt við deildarstjóra skoðið þið hvernig mannauður deildarinnar getur nýst til þess að búa til hópa innan deildarinnar með mismunandi áherslur t.d. málörvun, gróf- og fínhreyfingar, sjálfsefling o.s.frv. Í þessum samtölum er einnig ákvarðað hvernig, hvenær og hvar deildarstjórinn óskar eftir að fá inn starfsfólk fagteymisins til þess að sinna stuðningi/sérkennslu einstakra barna.
Af hverju fagteymi?
Góð reynsla er af fagteymis fyrirkomulaginu þar sem það hefur verið reynt. Fagteymið tryggir að starfsfólk sem á að sinna sérkennslu í leikskólanum fái þann tíma sem þarf til að sinna henni. Það er í anda snemmtækrar íhlutunar, skóla fyrir alla og anda farsældarlaganna að starfa á þennan hátt. Aðallega vegna þess að stuðningur/sérkennsla dettur aldrei niður vegna manneklu á viðkomandi deild.
Reynslan sýnir að starfsfólk fagteymisins er t.d. í hópastarfi með börn sem þurfa örvun á einhverju þroskasviði hvort sem er og er þá að sinna hluta af börnum deilda þar sem afleysinga er þörf.
Þá getur starfsfólk t.d. komið inn á deild á erfiðum stundum eins og rétt fyrir hádegi og minnkað þannig barnahópinn í samverustund o.s.frv.
Sérkennslustjóri og aðrir innan fagteymisins geta gripið inn í ef starfsmaður fagteymisins veikist. Skráning sérkennslunnar er þar mikilvæg svo að hægt sé að grípa inn í stuðning/sérkennslu ef þarf. Hér má sjá sýnishorn af því hvernig er hægt að skipuleggja tíma starfsfólks sem starfar við stuðning inni í leikskólanum.
Fundir fagteymisins
Eftirfylgd sérkennslustjórans á málum er mun einfaldari þar sem starfsfólk fagteymisins hittist reglulega, t.d. einu sinni í viku. Á þeim fundum fer sérkennslustjórinn yfir það með aðilum teymisins hvernig vikan hefur gengið, hvað er framundan hjá einstaka barni (teymisfundir, greiningar o.fl.), skráningar og gefur góð ráð.
Sérkennslustjóri getur einnig verið með fræðslu á þessum fundum eða einhver segir frá námskeiði sem viðkomandi fór á eða annað sem hann hefur kunnáttu á. Það er óhjákvæmilegt að það starfsfólk sem sinnir námi barna með sérkennslu þurfi á aukinni fræðslu að halda til þess að koma sem best á móts við einstaka barn. Sérkennslustjórinn getur því þurft að leita út fyrir leikskólann, í samráði við leikskólastjóra eftir fræðslu er varða þroskafrávik einstakra barna.