Ef skimun í leikskólanum, sem leikskólakennarar og annað fagfólk annast, eða mat sérfræðinga Hverfamiðstöðva vísar í þá átt að barn er ekki að fylgja jafnöldrum sínum í þroska er ákveðið að vinna sérstaklega með ákveðna þroskaþætti barnsins. Í báðum tilvikum fara fram skilafundir með þátttöku foreldra, deildarstjóra og sérkennslustjóra leikskólans. Á þessum skilafundum er mikil áhersla lögð á að fá ráðgjöf og tillögur að úrræðum frá sérfræðingunum varðandi þá þætti sem vinna þarf sérstaklega með. Þær upplýsingar eru svo notaðar til þess að gera eða uppfæra einstaklingsnámskrár barnanna.
Við gerð einstaklingsnámskrár er staða barnsins kortlögð og skráð nákvæmlega. Í einstaka tilvikum þegar verið er að skipuleggja inngrip vegna frávika, kjósa sérkennslustjórar í samvinnu við sérkennsluráðgjafa að nota skilgreind matskerfi t.d. AEPS matskerfið. Þar koma fram markmið varðandi þá þætti sem vinna þarf með og leiðir sem fara á til þess að ná þeim markmiðum.
Í einstaklingsnámskrá þarf eftirfarandi að koma fram:
gildistími námskrárinnar.
persónulegar upplýsingar eins og nafn, fæðingardagur, heimili, foreldrar, símanúmer, netföng, upplýsingar um þá sem eru í kjarnateymi barnsins, deildarstjóri, sérkennslustjóri, kennarar, stuðningur, símanúmer og netföng.
hvers vegna er þessi einstaklingsnámskrá gerð: t.d. samkvæmt niðurstöðum sérfræðinga þjónustumiðstöðva, TRAS, HLJÓM-2 eða EFI próf.
núverandi staða barnsins, styrkleikar og áhugasvið barnsins – það er mjög mikilvægt þegar leitað verður leiða til þess að finna leiðir að markmiðunum.
áhersluþættir næstu mánaða.
hver á að gera hvað og hvenær, starfsfólk á deild, kennarar, sérfræðingar og foreldrar.
Áhersla er lögð á að markmið einstaklingsnámskrár séu eins mælanleg og kostur er.