Ef áhyggjur vakna af velferð barns er gripið strax inn í með samtali foreldra, deildarstjóra og sérkennslustjóra. Mat er gert á þörfum barnsins og snemmtækri íhlutun beitt með gerð einstaklingsnámskrár í samráði við foreldra.
Allar mögulegar mælingar og mat á stöðu barnsins eru nýttar til að skoða styrkleika barnsins og ákvarða um stöðu þess. Einstaklingsnámskrá barnsins er endurskoðuð reglulega og tekur mið af niðurstöðum athugana. Í sérkennslustefnu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um að gerðar séu einstaklingsnámskrár fyrir öll börn með sérþarfir. Sníða verður sérkennslu að skilgreindum þörfum hvers barns og skal það gert með gerð einstaklingsnámskrár. Markmið námskrárinnar eiga að vera sértæk, fagleg og árangurstengd þar sem styrkleikar og áhugasvið barnsins verði höfð að leiðarljósi. Áhersla skal vera lögð á að barn sem nýtur stuðnings sé virkur þátttakandi í leikskólastarfinu og að stuðningur fari fram innan barnahópsins eins mikið og frekast er kostur. Allt starfsfólk leikskólans skal stuðla að fullgildi barna þannig að þau taki virkan þátt og öðlist gleði í leik og öðru námi og starfi. Því ber að stuðla að því að starf leikskóla einkennist af inngildandi hugarfari og starfsháttum.
Sérkennslustjóri getur skoðað nokkur form einstaklingsnámskráa á svæði Lærdómssamfélagsins.
Sérkennslustjóri, foreldrar, deildarstjóri og stuðningsaðili eiga að koma að gerð hennar.
Í einstaklingsnámskrám eiga eftirtaldir þættir að koma fram:
Langtíma‐ og skammtímamarkmið
Hvaða íhlutunaraðferðir á að nota
Hvar íhlutunin fer fram
Hvernig og hvenær á að meta árangur