Persónulegar upplýsingar varðandi börn í leikskólanum eru trúnaðarmál og þarf að varðveita öll gögn í læstum hirslum. Séu persónulegar upplýsingar geymdar í tölvu skal þess gætt að viðkomandi skrá sé læst með tryggum hætti. Leikskólastjórinn ber ábyrgð á meðferð og vörslu þessara upplýsinga. Aðgengi að þessum upplýsingum hafa þeir starfsmenn sem þær þurfa vegna starfa sinna.
Með tilkomu Persónuverndarlöggjafar (GDPR) frá því í júní 2018 hefur orðið mikil breyting á reglum um öflun, úrvinnslu og meðferð gagna sem innihalda persónuupplýsingar og sérkennslustjóri ætti að kynna sér vel.
Í ljósi nýju laganna er sérstaklega mikilvægt að huga að eftirfarandi atriðum:
fræðsla til foreldra og öflun skriflegs samþykkis þegar þess þarf, t.d. áður en ferli hefst.
mikilvægt er að fá undirritun foreldra á fundargerðir teymisfunda sem hluta af fræðsluskyldu.
huga að öruggri skjalavörslu og skilaskyldu á gögnum til Borgarskjalasafns í samræmi við lög um opinber skjalasöfn nr.77/2014. Fræða þarf foreldra um skilaskyldu.
mikilvægt er að vinnsla persónuupplýsinga sé málefnaleg og gætt sé meðalhófs. Á það bæði við um umfang og eðli upplýsinga sem skráðar eru. Aðeins skal skrá upplýsingar sem hafa þýðingu við kennslu og nám barnsins. Foreldrar skulu upplýstir um skráningu upplýsinganna.