Meginreglan er sú að börn með sérþarfir læra í gegnum leik eins og öll önnur börn. Leikefni sem almennt er í námsumhverfi barna í leikskólanum er því algerlega gjaldgengt sem íhlutunaraðferð.
Munum að leikur er námsleið barna á leikskólaaldri og því er mikilvægt og til þess ætlast að nýta leikinn til þess að efla alla þroskaþætti barnins. Þannig á leikskólinn í starfi sínu að skapa sérhverju barni bestu leikaðstæður sem völ er á. Leikskólakennarar eiga að hafa markviss áhrif á, taka þátt og efla nám þeirra í leik þar sem barnið stjórnar framgangi leiksins. Meirihluti leikskóladagsins á að innihalda leik, þar sem hverju barni eru veitt skilyrði til að njóta styrkleika sinna. Valdefling barna er mikilvægur þáttur í leikskólastarfi, að börn geri sér grein fyrir styrkleikum sínum og læri að byggja á þeim í merkingarsköpun sinni. Leikskólastarf á að stuðla að því að börn séu leiðtogar í eigin lífi. Það hefur jákvæð áhrif á vellíðan barna að þau upplifi að þau tilheyri samfélagi leikskólans, að á þau sé hlustað og þau taki virkan þátt í leikskólastarfinu, einnig er það mikilvæg vörn gegn einelti á meðal leikskólabarna. Þegar börn gera sér grein fyrir eigin möguleikum, geta þau betur tekist á við áskoranir, náð ávinningi og sýnt seiglu.
Í leik mynda börn tengsl við aðra, skapa sér þekkingu, taka sér hlutverk, skapa ímyndaðar aðstæður og fylgja reglum leiksins sem þau setja sjálf. Börn hafa mismunandi áhuga, búa yfir ólíkri reynslu og þekkingu, sem þau auðga leik sinn með. Þannig fer fram samofið nám í leik þar sem börn læra hvert af öðru með stuðningi leikskólakennara. Hægt er að ýta undir samþættingu námsviða með að hafa fjölbreyttan efnivið aðgengilegan börnum.
Við erum svo heppin að til er heilmikið af kennsluefni sem talmeinafræðingar og aðrir fagaðilar hafa útbúið, það auðveldar sérkennslustjórum mjög vinnuna. Það er samt afar mikilvægt að ganga ekki að því sem gefnu að stuðningsaðilar kunni að nota efnið. Þú þarft að vera þeim góð fyrirmynd og kenna á efnið á fjölbreyttan hátt.
Hér á landi hafa aðallega verið farnar tvær gagnreyndar leiðir í kennslu barna með einhverfu:
atferlisþjálfun, Applied Behavioral Analysis (ABA)
skipulögð kennsla, Treatent and Education of Autistic and Communication Handicapped Children (TEACCH).
Fleiri leiðir hafa þó verið reyndar m.a. í leikskólum Reykjavíkur, t.d spuna-tónlistarmeðferð, Improvizational music therapy og myndbandssýnikennsla, Video modeling. Hægt er að fá aðgang að myndböndum hjá Fjólu.
Foreldrar/forsjáraðilar í samstarfi við sérkennsluráðgjafa velja annaðhvort atferlisþjálfun (ABA) eða skipulagða kennslu (TEACCH), en þar til viðbótar eru ýmsar aðrar leiðir valdar samhliða eins og ástæða þykir til. Þannig er algengt að með báðum aðferðum eru notaðar óhefðbundnar tjáskiptaleiðir s.s. PECS-myndrænt boðskiptakerfi, CAT Kassinn, Skref fyrir skref, Vinir Zippýs o.fl.
Sérkennsluráðgjafar Hverfamiðstöðvar eru sérkennslustjórum innan handar í málefnum barna með einhverfu og aðstoða við val á leiðum í kennslu þeirra. Þeir koma með ábendingar um námskeið fyrir bæði starfsfólk og foreldra.