Hægt er að mæla með því að sérkennslustjóri setjist niður með hverjum deildarstjóra fyrir sig u.þ.b. þrisvar á ári, í fyrsta sinn að lokinni aðlögun barna að leikskólastarfinu. Hægt er að ræða um öll börnin á deildinni og þroskastöðu þeirra. Ræða um mannauðinn á deildinni sem getur komið að eflingu ákveðinna þroskaþátta barna. Ræða um gerð einstaklingsnámskráa fyrir einstaka börn, þátttöku foreldra, markmið og leiðir.
Mikilvægt er að ræða á þessum fundum um framkvæmd sérkennslunnar og leita leiða til að koma á móts við allan barnahópinn. Í umræðu hverrar deildar mætti notast við Handbók um leik barna í leikskólum.
Til er eyðublað sem sérkennslustjóri getur notað til þess að skrá niður helstu atriði er varðar hvert barn og áframhaldandi aðkomu sérkennslustjóra. Mikilvægt er að ákveða í sameiningu hvaða kennari/starfsmaður deildarinnar tekur að sér stuðning og verður lykilpersóna barnsins og tengiliður við sérkennslustjórann. Sérkennslustjóri þarf að vera sér meðvitaður um að það þarf í flestum tilvikum að fræða, kenna og fylgja eftir viðkomandi kennara/starfsmanni til verka. Ekki er hægt að ganga að því gefnu að viðkomandi kunni að setja upp dagskrá einstaklings/hópstunda eða t.d. að nota tilbúið námsefni sem keypt hefur verið. Þá er afar mikilvægt að vanda til skráningar í allri kennslu. Sjá eyðublað.