Við lesum Íslendingasögur með nemendum af ýmsum ástæðum. Sögurnar eru spennandi og dramatískar og skapa tækifæri til að ræða ýmsar áskoranir sem manneskjur geta stað frammi fyrir í lífinu, samskipti, skapgerðir, siðferði og ákvarðanatöku. Sögurnar gefa innsýn í menningu og lífsstíl landnema á Íslandi fyrir þúsund árum. Okkur finnst líka mikilvægt að nýta sögurnar sem stökkpalla að sköpun nemenda.
Í 7. bekk lesa allir nemendur Kjalnesingasögu undir stjórn kennara. Kennarar lesa söguna upphátt fyrir alla nemendur sem vinna lestrardagbók með hverjum kafla. Lestrardagbókin er unnin að fyrirmynd frá Oddi Inga kennara í Langholtsskóla og kunnum við honum bestu þakkir fyrir lánið. Eftir að öll sagan er lesin fá nemendur tíma fyrir skapandi skil og geta þá valið afmarkaðan þátt sem þeir endurskapa á einhvern hátt í eigin verkefni.
Áður en kennari byrjar að lesa Kjalnesinga sögu með bekknum er gott að spjalla aðeins um Íslendingasögurnar, efni þeirra og einkenni. Í þessu litla verkefni lesa nemendur aftan á bókina, vinna með orðaforða og æfa sig að búa til spurningar úr textanum og um efnið.
Nemendur í 8.-10. bekk velja eina af fimm bókum sem er í boða að lesa. Ein bókin (Egils saga) er eyrnamerkt fyrir þá nemendur sem vilja fá meiri stuðning við lesturinn frá kennara. Nemendur fá senda valmöguleikana í forms könnun þar sem Egils saga er merkt "sérkennsla, meiri stuðningur frá kennara".
Nemendum sem velja sömu bók er síðan raðað í 4-6 manna hópa sem setja sér áætlun um lesturinn, eiga samræður um kaflana jafnóðum og þeir eru lesnir og hjálpast að við fjölbreytta verkefnavinnu. Hver nemandi safnar öllum verkefnum sem hann vinnur í lestrardagbók eða safnmöppu. Þegar nemendur hafa lokið vinnu við skylduverkefni geta þeir unnið skapandi skil, minni eða stærri verkefni eftir áhuga, metnaði og tíma.
Ástæður fyrir því að við skipuleggjum lestur nemenda í bókaklúbbum eru t.d. að þá hafa nemendur val um lesefni, þeir hafa stuðning og hvatningu frá felögum sínum í hópunum og þeir læra betur að bera ábyrgð á námi sínu þar sem þeir þurfa sjálfir að skipuleggja lestur og verkefnavinnu.
Kennari fer yfir efni og einkenni á þeim bókum sem nemendur mega velja að lesa áður en nemendur skila vali á bók.
Íslendingasögurnar voru lesnar í fimm vikna stapamixi. Í hverri viku eru sex kennslustundir (3 X 80 mínútur).
Kynning á bókum, nemendur velja bók og er raðað í bókaklúbba.
Inngangur að Íslendingasögum.
Lestraráætlun.
Þýddu texta á nútímamál.
Teikna höfuðstaf.
Umræður.
Lestrardagbók.
Hvernig byrjar bókin?
Ættartré.
Mat á umræðum.
Lestrardagbók.
Persónur í sögunni.
Krossglíma.
Mat á umræðum.
Lestrardagbók.
Setjið söguna á kortið.
Segðu frá sögunni þinni.
Klára lestrardagbók.
Skapandi skil.
Við skipulag verkefnisins var áhersla lögð á að vinna með lykilhæfni nemenda og hæfni í íslensku. Í Stapaskóla hafa kennarar á unglingastigi sett saman lista yfir lykilhæfniviðmið með því að nota grunninn úr Aðalnámskrá grunnskóla en safna líka saman viðmiðum sem birtust í námskrám ólíkra námssviða en fjölluðu um sömu hæfni svo sem talað mál, gagnrýna hugsun og heimildanotkun. Lykilhæfninámskráin er í þróun en hefur nýst kennurum mjög vel skólaárið 2021-2022.
Í upphafi hverrar kennslustundar taka bókaklúbbarnir umræðu um þá kafla sem búið er að lesa. Á tímabilinu sem nemendur lesa Íslendingasögurnar koma kennarar í hlustun á umræður hópanna 1-3, eftir því sem tími vinnst til. Nemendum er kynntur matskvarðinn og auk þess að nýta hann í kennaramat má að sjálfsögðu líka nýta kvarðann í sjálfsmat eða jafningjamat innan hópanna.
Með skapandi skilum hefur nemandinn tækifæri til að sýna meiri hæfni en skoðuð er í skylduverkefnunum.
Verkefnin geta nemendur unnið einstaklingslega eða í hópum.
Hugmyndir og lýsingar má nálgast á vef um skapandi skil.
Í verkefninu er lesinn texti um Íslendingasögurnar úr námsefninu Logar. Í verkefninu er unnið samkvæmt aðferðinni gagnvirkur lestur með áherslu á orðaforða og að draga saman aðalatriði.
Þegar nemendur eru komnir í bókaklúbb byrja hóparnir á því að skipuleggja lesturinn:
Daglegur lestur?
Lesa upphátt í kennslustundum fyrir hver aðra?
Hvenær ætlar hópurinn að vera búinn að lesa alla bókina?
Við látum nemendur hafa skráningarblað til að halda utan um lestraráætlun hópsins. Við leggjum mikla áherslu á að áætlunin sé sameiginleg innan hópsins svo að allir komi jafnt undirbúnir í umræður um bókina.
Texti: Gísla saga Súrssonar
Texti: Gunnlaugs saga ormstungu
Texti: Kjalnesinga saga
Texti: Laxdæla saga
Verkefnið er tvíþætt og miðast við að nemendur vinni með efni úr 1. og 2. kafla bókarinnar.
Nemendur búa til töflu og flokka nöfn og einkenni sögupersóna.
Nemendur búa til landakort sem sýnir þá staði sem nefndir eru í 1. og 2. kafla.
Í verkefninu tekur hver nemandi fyrir eina af aðalpersónum sögunnar og gerir glærukynningu um hana. Nemandinn þarf að draga persónuna út úr textanum og skálda í eyðurnar. Hann þarf líka að setja sig í spor persónunnar og lýsa degi í lífi hennar með dagbókarfærslu.
Verkefnið er samið af frábærum kennaranemum sem voru í vettvangsnámi í Stapaskóla vorið 2021, þeim Maríu Árelíu Guðmundsdóttur og Bryndísi Sunnu Guðmundsdóttur. Við þökkum þeim kærlega fyrir efnið.
Við vinnum krossglímur í margvíslegu samhengi. Verkefnið eflir læsi og orðaforða með því að gera þá kröfu til nemenda að þeir rýni í texta og finni í honum mikilvæg hugtök. Í þessu tilfelli biðjum við nemendur um að skrifa stuttar málsgreinar þvert á titil sögunnar og markmiðið er að segja söguna að sem mestu leyti með þeim setningum sem valdar eru.
Á stórum vegg í skólanum hefur nemandi teiknað upp kort af norðvestur Evrópu. Hlutverk allar nemenda er að setja saman texta og myndir um efni sagnanna sem þeir eru að lesa og hengja inn á rétta staði á kortinu.
Hver bókaklúbbur býr til söguveg sem sýnir söguþráð bókarinnar sem hópurinn er að lesa. Hver nemandi tekur síðan söguveginn með sér í nýjan hóp sem kennarar raða sama og segir krökkum sem voru að lesa aðra Íslendingasögu frá bókinni, og hlustar á söguþræði annarra Íslendingasagna sem hinir í nýja hópnum segja frá.
Nemendur frá matskvarða til að nýta í jafningjamati á frágangi söguvegar og framsögunni.
Í lokavikunni hafa nemendur tíma til að vinna að skapandi skilum, ganga vel frá lestrardagbókum og skila til kennara.