Hugurinn ber þig hálfa leið

Heimspekin í lífi okkar

Í stapamixinu Hugurinn ber þig hálfa leið var stefnt að því að virkja nemendur í heimspekilegar pælingar, þjálfa samræðufærni og skoða hvernig hugsanir okkar hafa áhrif á daglegt líf.

Hæfniviðmið

Lykilhæfni:

  • Tjáir hugsanir sínar, hugmyndir og tilfinningar á skipulagðan, skýran og viðeigandi hátt

  • Getur lýst með dæmum gildi jákvæðra lífsviðhorfa, dygða og gildismats fyrir eigin sjálfsvitund.

  • Getur lýst margvíslegum tilfinningum og áttað sig á áhrifum þeirra á hugsun og hegðun.

  • Getur nýtt fjölbreyttar aðferðir við að miðla þekkingu sinni og leikni, skoðunum, hugsunum og tilfinningum á skapandi, skipulegan og skýran hátt sem við á hverju sinni.

  • Hlustar eftir rökum og upplýsingum í samræðum og tekur tillit til ólíkra sjónarmiða.

  • Getur byggt upp skýra röksemdafærslu í máli sínu af yfirvegun og þannig að áhugi viðmælenda sé vakinn.


Íslenska:

  • Nýtir sér fjölmiðla, svo sem útvarp, sjónvarp, kvikmyndir og rafrænt efni, og tekur afstöðu til þess sem þar er birt.

  • Getur samið texta frá eigin brjósti og er óhræddur við að beita ríkulegu tungutaki í skapandi ritun.

Skipulag

Tími 1-3: Sýnum kvikmyndina Groundhog day.

Tími 4-6: Einstaklingsverkefni, úrvinnsla eftir áhorf á Groundhog day. Myndasaga þar sem borinn er saman venjulegur dagur og fullkominn dagur.

Tími 7-9: Rökvillur, innlögn og verkefni sem nemendur höfðu val um að vinna einir eða í 2-3 manna hópum.

Tími 10: Samræðureglur. Nemendur vinna í 5-6 manna hópum. Bekkurinn skoðar saman niðurstöður allra hópanna undir stjórn kennara.

Tími 11-12: Hamingjan, hugtakalína. 12-18 manna hópar vinna undir stjórn kennara.

Tími 13-14: Jákvæð samskipti. Innlögn kennara og nemendur taka leikþátt upp á myndband í 4-6 manna hópum.

Tími 15-17: Ógagnrýnar manneskjur. Innlögn kennara. Nemendur vinna í 4-6 manna hópum. Skrifa handrit og skila myndbandi með leikþætti.

Verkefnalýsingar

Myndasaga: Fullkominn dagur

Eftir að hafa horft á kvikmyndina Groundhog day áttu nemendur að búa til tvær myndasögur þar sem þeir báru saman venjulegan dag og fullkominn dag.

Leiðbeiningar voru gefnar í myndasögunni hér til hliðar.

Nemendur höfðu val um hvernig þeir unnu myndasöguna sína: á pappír, í book creator, canva eða öðru forriti að eigin vali.

Rökvillur

Rökvillur eru algengar í fjölmiðlum og daglegum samtölum, við erum oft löt í hugsun og vöndum okkur ekki nóg. Í þessu verkefni fá nemendur kynningu á mjög algengum rökvillum og æfa sig í að finna þessar villur í tilbúnum dæmum og aðstæðum í kringum sig.

Verkefnið er sótt í verkefnabanka heimspekikennara.

Hugtakaleikur_hamingja.docx

Dæmasafn: Gefur þetta hamingju?

Hamingjan - hugtakalína

Undirbúningur: Nemendur fá tvo miða hver. Á annan miðann eiga þeir að skrifa stutt dæmi um eitthvað sem gefur okkur hamingju. Á hinn miðann eiga þeir að skrifa dæmi um eitthvað sem veldur okkur óhamingju.

Kennari safnar öllum miðunum saman og skrifar þá upp með stóru letri svo að persónuleg einkenni birtist ekki á miðunum (myndir, skrift o.fl.). Kennarinn ritskoðar burt dæmi sem fjalla um persónur í hópnum eða dæmi sem fjalla um óviðeigandi hluti. Hann sameinar dæmi sem fjalla um svipuð atriði.

Í stað þess að láta nemendur skrifa dæmin getur kennari líka notað dæmasafnið sem hægt er að opna hér að ofan.

Næst þegar hópurinn hittist vinna nemendur í hópum (10-20 nemendur í hópi). Hópurinn kemur sér fyrir með kennara þar sem er gott gólfpláss, allir draga 1-2 miða úr bunkanum hjá kennara. Kennarinn dregur línu á gólfið fyrir framan nemendur, hugtakalínu þar sem endarnir heita "mesta hamingjan" annars vegar og "mesta óhamingjan" hins vegar.

Einn nemandi í einu les upp miðann sinn og raðar honum á línuna. Í þessari umferð eru ekki umræður, ekki beðið um rök. Þegar allir nemendur eru búnir að raða dæmunum sínum fá nemendur að biðja um orðið ef þeim finnst eitthvert dæmi vera á "röngum stað" á línunni. Nemandinn má þá færa dæmið á "réttari stað" og verður að rökstyðja af hverju hann vill gera þessa tilfærslu á hugtakalínunni. Út frá þessum tilfærslum er nemendum gefið tækifæri til að ræða málin og einstök dæmi.

Í lokin getur kennari beðið alla nemendur um að draga saman umræðuna með því að skrifa stutta hugleiðingu um spurninguna: "Hvernig á ég að lifa lífi mínu til að öðlast hamingju?"

Meira um hugtakalínur í verkefnabanka heimspekitorgsins.

Samræðureglur

Nemendur vinna í 4-5 manna hópum. Hver hópur fær eitt sett af dæmum um samræðureglur, dæmi um slíkt sett er aðgengilegt á canva.

Hver hópur á að velja þær fimm reglur sem eru mikilvægasta til að skapa góða samræðu í hópnum. Hópurinn á líka að velja þær fimm reglur sem mætti henda, þ.e. þær skipta minnstu máli til að skapa góða samræðu í hópnum.

Gott er að gefa hópunum afmarkaðan tíma í umræðuna, t.d. 7 mínútur.

Þegar umræðu í hópunum er lokið dregur kennarinn saman niðurstöðu allra hópanna. Bekkurinn fær þá tækifæri til að skiptast á skoðun um ólík dæmi. Samræða bekkjarins miðast við að velja þær fimm reglur sem hópurinn vill gera að sínum á komandi vikum.

Jákvæð samskipti - Spuni

Í verkefninu gera nemendur æfingu í jákvæðum samskiptum. Þeir fá kynningu á leikreglum spuna og spinna síðan sjálfir leikþátt þar sem aðal reglan er að svara alltaf "Já, og..."

Uppbyggilegar samræður - Spuni.pptx

Leikræn tjáning

Í verkefninu kynnast nemendur nokkrum manneskjum sem hafa ólíkan hugsunarstíl. Nemendur búa síðan til stuttan leikþátt þar sem persónur með ólíku hugsanastílana eiga samtal.

Innlögn er sótt í verkefnabanka heimspekikennara. Upphaflega er verkefnið birt í námsefninu Hvað heldur þú?