Segðu frá bók sem þú varst að lesa, sögulegum viðburði, uppfinningu, landi eða öðru sem þú ert að læra um með því að safna hlutum sem tengjast efninu í box og skreyta það.
Fyrirmynd að þessu verkefni kemur frá breska rithöfundinum Charlotte Bronte sem skrifaði örlitla bók þegar hún var aðeins 14 ára gömul. Bókin var svo lítil að hægt var að geyma hana í eldspýtustokk.
Bókin var löngu síðar keypt af listasafni fyrir 600.000 evrur! Lestu frétt um málið í breska blaðinu Guardian.
Þú þarft að vita hvað þú ætlar að sýna með kassanum. Áður en þú byrjar að safna efni í kassan skaltu því hugsa vel hvað þú vilt að fólk upplifi þegar það skoðar kassann. Það getur verið gott að gera hugarkort til að skipuleggja hugmyndirnar þínar.
Þú þarft líka að ákveða hvernig kassa þú ætlar að nota: eldspýtustokk, skókassa, box sem þú býrð til sjálft, kassa úr matarbúðinni, tösku eða annað sem þú finnur heima hjá þér eða í skólanum.
Þessi atriði þurfa að vera í kassanum áður en þú skilar:
Það þarf að vera hægt að loka kassanum eða pakka honum saman til að flytja hann milli staða.
Merking sem útskýrir hvað kassinn sínir, og nafnið þitt.
Það þurfa að vera leiðbeiningar um hvort fólk megi snerta eða bara skoða.
Kassinn þarf að geta staðið þannig að fólk geti skoðað hann.
Myndir og hlutir sem segja frá efninu sem kassinn á að fjalla um.
Textar sem gefa myndunum og hlutunum meiri merkingu. Textarnir geta t.d. verið merkimiðar, verðmiðar, farseðlar, dagbókarfærslur, samantektir (t.d. útdráttur úr sögu), landakort, vegabréf, leiðbeiningar, uppskriftir og svo framvegis.
Þú getur þjálfað margvíslega lykilhæfni þegar þú vinnur að kvikmyndagerð:
Getur nýtt fjölbreyttar aðferðir við að miðla þekkingu sinni og leikni, skoðunum, hugsunum og tilfinningum á skapandi, skipulegan og skýran hátt sem við á hverju sinni.
Tekur mið af og lagar framsetningu að kröfum eða þörfum viðmælenda og notar viðeigandi hugtök.
Getur spurt spurninga og sett fram áætlun um efnistök.
Getur endurskoðað skipulag og verkefnavinnu og gert úrbætur á eigin verkum.
Leitar lausna og leysir verkefni á fjölbreyttan og skapandi hátt.
Getur skilgreint og rökstutt viðmið um árangur.
Er óhræddur að nýta sér mistök og óvæntar niðurstöður á gagnrýninn og skapandi hátt og sér í þeim nýja möguleika.
Getur beitt mismunandi sjónarhornum og gagnrýninni hugsun við mótun og miðlun viðfangsefna á skapandi hátt.
Getur unnið sjálfstætt og með öðrum og tekið á jákvæðan hátt þátt í samskiptum og námi.
Tekur frumkvæði í námi sínu, sýnir sjálfstæði og ábyrgð í vinnubrögðum.
Nýtir styrkleika sína í námi og samskiptum.
Lítur á veikleika sína sem áskorun og sýnir vilja til að takast á við þá.
Getur borið ábyrgð á eigin námi (t.d. að leita sér aðstoðar þegar þörf er á og skilað verkefnum á réttum tíma).
Tekur leiðsögn og gagnrýni á uppbyggilegan hátt.
Getur sett fram eigin gagnrýni á uppbyggilegan hátt.