Stapamix er heiti á þverfaglegu námi sem unnið er í 7.-10. bekk Stapaskóla. Verkefni eru skipulögð í þemum og setja mikinn svip á starf unglingadeildarinnar.
Stapamix er samþætting allra bóklegra námsgreina á unglingastigi. Breytilegt getur verið eftir því hvaða Stapamix er í gangi hve margar kennslustundir falla undir Stapamix, eftir því hvaða námsgreinar eru hluti af samþættingunni hverju sinni.
Kennt er í tveimur tvenndum, þ.e. tveimur stórum kennslustofum sem hvor um sig hýsir tvo árganga í skólanum. Innlagnir fara ýmist fram innan bekkjareininga, innan tvenndar eða fyrir unglingastigið í heild sinni á sal skólans.
Þegar verkefnavinna nemenda er komin af stað dreifist starfið um allt húsnæði skólans. Gangar eru mikið notaðir, þar eru borðkrókar og sethólf sem nemendum finnst gott að vinna í. Smiðjukennarar (list- og verkgreinar) bjóða hópa velkomna þegar tök eru á og verkefni þarfnast.
Lengri og styttri vettvangsferðir eru líka fastur liður í Stapamix verkefnum.
Nemendur í 7.-10. bekk taka þátt í Stapamix verkefnum. Skólaárið 2025-2026 eru um 141 nemendur í þessum hópi.
Meðal markmiða samþættingar-innar er að nemendur kynnist vel þvert á árganga, læri að vinna með ólíku fólki og taki að sér leiðtogahlutverk í ólíku samhengi.
Stapamix verkefni eru margvísleg og unnin eftir ólíkum leiðum. Lítil einstaklingsverkefni eru af og til lögð fyrir en algengara er að nemendur vinni í minni eða stærri hópum.
Ef verkefni varða viðkvæm mál eða þarfnast þess sérstaklega að traust ríki milli nemenda er raðað í hópa innan árgang og jafnvel með vinavali. Í öðrum verkefnum er nemendum raðað í hópa þvert á alla árgangana og þá er eldri nemendum oft falin ákveðin ábyrgð og þeir settir í leiðtogahlutverk í vinnunni.
Stapamix verkefni eru skipulögð og kennd af teymi kennara á unglingastigi. Umsjónarkennarar 7.-10. bekkjar og fagkennarar í náttúrufræði, samfélagsfræði og dönsku taka þátt.
Kennarateymið tekur sameiginlegar ákvarðanir um hvaða verkefni eru unnin. Hver kennari ber ábyrgð á ákveðnu fagsviði í sínu daglega starfi og hann gætir þess að þessu fagsviði sé vel sinnt þegar valin eru hæfniviðmið og gengið frá námsmati í Stapamix verkefnunum.
Kennarar skiptast á að vera ábyrgðarmenn verkefna. Yfirleitt bera tveir kennarar ábyrgð á hverju verkefni og þeirra hlutverk er að halda utan um skipulag og undirbúning, deila út verkefnum til annarra kennara, sjá um innlagnir, námsmat og fréttaflutning að afloknum verkefnum.
Erindi Stapamix teymisins
á ráðstefnu Félags áhugamanna um skólaþróun
sem haldin var 12. ágúst 2022.
Erindi Stapamix teymisins á ráðstefnunni Læsi fyrir lífið sem haldin var við Háskólann á Akureyri
10. september 2022