Í skóladagatali FNV eru merktir inn Vörðudagar þrisvar á önninni. Það eru alltaf tveir dagar í senn. Fyrsta Varðan er þegar um það bil þriðjungur er liðinn af önninni. Eftir annan þriðjung er Varða númer tvö og í lok annar er síðasta Varðan.
Þessir dagar eru námsmatsdagar sem nýttir eru til þess að fara yfir stöðu nemenda. Þið fáið vörðueinkunn rétt fyrir Vörðudagana og umsögn frá kennara. Vörðueinkunn er bókstafur, G, T, Ó eða X.
G - Gott.
T - Tækifæri til umbóta
Ó - Ófullnægjandi
X - Ekki forsendur fyrir mati.
Það skal tekið fram að vörðueinkunnir hafa ekki áhrif á lokaeinkunn. Tilgangurinn er fyrst og fremst að gefa ykkur hugmynd um stöðu ykkar á þessum tímapunkti og hvetja ykkur til dáða í náminu.
Það er misjafnt hvað nemendur eiga að gera á þessum dögum, það fer bæði eftir vörðueinkunn og áfanga, en nemendur skulu gera ráð fyrir því að þurfa að mæta í skólann á þessum dögum og fylgjast vel með skilaboðum frá kennara um það hvort þeir eigi að mæta í viðtöl eða verkefnaskil.