Samvinna manna og dýra

Með aðstoð Margrétar H. Blöndal, myndlistamanns, veltu yngstu nemendu Landakotsskóla fyrir sér samlífi æðafugls og manns og bjuggu til módel af varpsvæðum sem vísast gætu hænt alla æðafugla landsins til lags við mannfólkið. Louise Harris sýndi nemendum margs konar myndir af fuglum og hver og einn vann teikningar sem urðu grunnur að þæfðu verki þar sem vísindi og staðreyndir fengu að víkja fyrir ímyndunaraflinu.

Saga dúntekju er nátengd sögu þjóðarinnar en æðarfuglinn hefur lifað með Íslendingum síðan land byggðist á ofanverðri níundu öld. Æðarrækt og vinnsla æðardúns er byggð á aldagömlum hefðum sem hafa byggst upp kynslóð fram af kynslóð. Íslenski æðarfuglinn og æðarbændur hafa þróað einstakt samband sín á milli byggt á vináttu og gagnkvæmu trausti. Villtur æðarfuglinn hefur lært að bændur veita honum vernd fyrir rándýrum en margir þeirra standa vakt um æðarvarpið allan sólarhringinn á varptíma. Á vorin er búið í haginn fyrir komu æðarfuglsins með því að hreinsa varpsvæðið og girða það af þar sem því er við komið. Vinsælt er að nota litríka hluti sem laða fuglinn að.