Ísbjarnablús
Þrykk á léreft og pappír
Verkið er unnið af nemendum úr Melaskóla, Laugalækjaskóla, Sæborg og frístundaheimilinu Dalseli undir handleiðslu Öldu Rose Cartwright.
Hvítabirnir eru stærstu rándýr sem fyrirfinnst á jörðinni. Þeir búa með ströndum og á hafís allt umhverfis norðurheimskautið. Þeim líður best nálægt næringarríku grunnsævi þar sem sjávarstrauma gætir og ísinn verður ekki of þykkur á veturna. Selir eru aðalfæðan og forsenda fyrir afkomu þeirra. Hvítabirnir geta ferðast langar vegalengdir í leit að fæðu og finnast oft á rekís.
Loftslagsbreytingar með tilheyrandi hlýnun undanfarna áratugi hafa haft mikil áhrif á norðurheimskautsvæðið. Jöklar hafa bráðnað og yfirborð þeirra og útbreiðsla minnkað, hafís er þynnri og sum svæði leggja ekki nema yfir háveturinn. Þessar breytingar eru erfiðar fyrir hvítabirnina. Stærsta vandamál þeirra er röskun búsvæða vegna breytinga á hafísnum sem hefur áhrif á fæðuskilyrði þeirra. En mengun af völdum þrávirkra efna og þungmálma hefur líka neikvæð áhrif á lífsskilyrði þeirra.