Ævintýranám

Í De Wijnberg hefur Per Wijnands umsjón með ævintýranáminu (e. adventure therapy og experience based learning). Hann er kennurum innan handar ef þeir vilja koma með námshópana sína á útiskólasvæðið. Kennurum býðst einnig að hann leiðbeini þeim ef þeir vilja fara með námshópana sína við vinnu utandyra.

Per segist eiga í fórum sínum mörg hundruð leiki og aðferðir sem byggja upp traust innan hópa og einnig hvernig einstaklingar geti lært að treysta bæði öðrum og sjálfum sér svo þeir geti tekist á við áskoranir sem þá dreymir um eða jafnvel þekkja ekki til.

Per benti á að allir kennarar eigi að vera færir um að nýta nánasta umhverfi skólans til þess að fara út fyrir fjóra veggi skólastofunnar til að fara í leiki og verkefni sem efla traust og vellíðan innan námshópa. Hann segir að hann gangi alltaf með bolta, snæri og trefil á sér því úr því þrennu sé hægt að fara í urmul hópleikja utandyra.

Per tekur líka á móti einstaklingum í ævintýranám á útiskólasvæðinu og þá miðast það sem hann gerir með þeim við áætlanir kennara og meðferðaraðila hvers og eins.

Per hefur verið í evrópsku samstarfi um ævintýranám. Samstarfshópurinn hefur búið til heimasíðu um verkefnið. Hann benti okkur líka á íslenska heimasíðu sem tengist þessu verkefni.