Áhugi og styrkleikar

Verk eftir nemendur í yngri deild skólans.

Í meðferðar- og námsáætlunum skjólstæðinga Mutsaersstichting er leitast við að áætlanirnar byggi á verkefnum sem eru innan áhugasviðs skjólstæðinganna og styrkleika þeirra.

Starfsfólk De Wijnberg leggur áherslu á að þegar náms- og meðferðaráætlun byggir á styrkleikum nemenda og því að þeir hafa val um viðfangsefni þá styrkjast nemendur ekki bara námslega heldur einnig sál- og félagslega. Það er vegna þess að börn og ungmenni með námsörðugleika sem þurfa að stunda nám í námsumhverfi sem ekki hefur verið aðlagað þörfum þeirra fer lítið fram. Það verður oftast til þess að þeim fer að líða illa og haga sér í samræmi við líðan sína. Sumir draga sig í hlé en aðrir láta mikið fyrir sér fara.

Stress og erfiðleikar vegna námsörðugleika og vanlíðunar geta líka staðið í veginum fyrir því að aðrir hæfileikar barnanna þroskist. Það dregur enn frekar úr möguleikum þeirra til framfara í því sem þau taka sér fyrir hendur.

Þess vegna er í stundaskrá skólans gert ráð fyrir því að nemendur hafi val um viðfangsefni, bæði um miðjan dag og einnig í lok dags.

Um miðjan dag geta nemendur sem eru 8-18 ára valið að vera á fjórum mismunandi stöðum í tvær kennslustundir og í lok dagsins tvisvar í viku eru að jafnaði sjö stöðvar sem reyna á sköpun og hreyfingu nemenda.

Hjá nemendum í yngri deild skólans eru valtímar á hverjum degi.

Nemendur læra þannig að meta eigin stykleika og að nýta sér þá til framfara í leik og starfi. Lykilatriðið í náms- og meðferðaráætlunum er að nýta styrkleika og áhuga nemenda til að þeir finni að þeir verði betri í því að vaxa á öllum sviðum.