Að gera gott betra

Áskorun námsferða er að vinna úr þeim þannig að þær komi að gagni þegar þeim er lokið. Á meðan á heimsókninni stóð kviknuðu eftirfarandi hugmyndir:

  • Kynna heimsóknina fyrir starfsfólki Hlíðarskóla.

  • Kynna heimsóknina sem víðast.

  • Fá nemanda innan skólans til að vinna verkefni sem nemandi í De Wijnberg gaf Unnari og koma á samskiptum milli þeirra nemenda.

  • Búa til eigin ramma með markmiðum um þjónustu nemenda sem fá mikla námsaðlögun og hafa ramma De Wijnberg sem fyrirmynd. Byrja á einu máli og fá nema til að búa til stöðumat og aðstoða við að gera áætlunina.

  • Virkja nemendur við að finna út hvað eigi að vera í smiðjum og að kennarar skrái sig á smiðjur eftir því hvað þeir kunna og treysta sér til að vinna með nemendum.

  • Bjóða uppá ævintýraútiskóla einu sinni í mánuði í útiskóla 1.-4. bekkjar.

  • Skoða möguleika á að koma á daglegu vali fyrir hjá nemendum í 1.-4. bekk.

  • Bjóða uppá naglalökkun á opnum smiðjudegi á jóladagskrá.

  • Byrja að safna byggingarefni í smiðju þar sem nemendur búa til byggingar.

  • Búa til "róa sig niður" kassa og kassa til skynörvunar.

  • Þýða átthyrninginn og Fasemódelið og aðlaga það Jákvæðum aga. Fá grafískan hönnuð með okkur í lið svo það verði handhægt og sýnilegt.

  • Stefna að því að allir nemendur sem þurfa námsaðlögun fái áætlun með raunhæfum markmiðum og aðferðum við mat á framvindu.

Sprotaverkefnið Gerum gott betra

Í lok mars 2018 sótti Þelamerkurskóli í samstarfi við Dalvíkurskóla og Naustaskóla um styrk til Sprotasjóðs til að vinna að verkefni sem á rætur í námsferðinni. Sprotaverkefnið köllum við Gerum gott betra. Markmið þess er:

  • að bæta þjónustu við nemendur með sértæka námserfiðleika og námsaðlögun

  • að innleiða formlegt mat á framvindu náms, líðan og hegðunar nemenda sem fá námsaðlögun

  • að auka hlut náms sem byggir á að efla virkni og færni hjá nemendum með sértæka námsörðugleika þar sem áhugi þeirra og styrkleika eru nýttir til að stýra námsframvindunni.

Áformað er að skólarnir þrír haldi að minnsta kosti fimm vinnustofur og umræðufundi næsta vetur og nýti sér handleiðslu fagfólks við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Reiknað er með því að verkefninu ljúki með málþingi haustið 2019 til að deila með öðrum lærdómnum af verkefninu.

Vefsvæði málþings Gerum gott betra

Þegar Sprotasjóðsverkefninu Gerum gott betra lauk var haldið málþing til að deila þekkingunni og reynslunni sem þátttakendur þess höfðu aflað sér. Hérna er hægt að skoða dagskrá þess og gögn.

Skrifað um kynnisferðina og Gerum gott betra

Í júní 2018 birtist grein í Skólaþráðum um kveikju og tilurð skólaheimsóknarinnar til De Wijnberg og Sprotasjóðsverkefnið Gerum gott betra.


Námsferðin, kveikja hennar og framkvæmd í tímariti hollensku skólastjórasamtakanna

Í júní 2018 var birt grein sem byggð var á viðtölum við skólastjórana þrjá sem tóku þátt í námsferðinni til Hollands. Á heimasíðu Þelamerkurskóla er sagt frá greininni.